Færsluflokkur: Bloggar

Mín græna lífssýn - Viðhorf

Sumir menn geta ekki hugsað sér að verðmæti geti verið óháð manninum, en eins væri hægt að líta svo á að þar sé frekar um að ræða takmarkað ímyndunarafl og siðferðisþroska viðkomandi, en heimsku eða einfaldleika náttúruverndara.

"Þið umhverfissinnarnir eruð á móti öllum framkvæmdum og öllum framförum. Þið eruð á móti fólki! Þið viljið ekki að það sé hægt að búa í þessu landi!" Þessi orð, eða eitthvað svipað, hef ég margoft heyrt þegar ég geri heiðarlega tilraun til að ræða málefni á málefnalegan hátt. Ég treysti því að flestir lesendur geri sér grein fyrir þeim fáránlegu og sorglegu rökvillum sem felast í þessum orðum hér að ofan. Ég treysti því ennfremur að lesendur geri sér grein fyrir ósanngirninni sem felst í þeim og því að þau eiga hvergi heima í rökræðu siðmenntaðra manna.

Ég hef í undanförnum viðhorfum reynt að skýra viss grundvallaratriði um tengsl eða samtvinnun skynsemi og tilfinninga. Grundvallarhugmynd mín er sú að skynsemi geti ekki verið til án tilfinninga, enda séu þær mælikvarði réttlætis, fagurfræði og ástar, sem öll skynsemi hlýtur að hvíla á, ef hún á, á annað borð, að vera mannleg en ekki vélræn.

Ég vil í þessu ljósi beina athygli lesenda að náttúrusýn náttúruverndarsinna. Gjarnan reyna þeir sem hinum megin borðsins standa að uppnefna hana einkar málefnalega "náttúruvernd hinna svörtu sanda" eða "Svokallaðir (eða sjálfskipaðir) umhverfisverndarsinnar" í því skyni að eyðileggja málstaðinn viðmælandans fyrirfram. Þetta er vissulega leitt, en mig langar þó til að reyna að skýra náttúruvernd í stuttu máli.

Náttúruverndarhugsjónin felst ekki í því að vera á móti fólki. Hún felst frekar í eftirfarandi hugsun: Náttúran á sér vissan tilverurétt, óháð manninum. (Ég bið þig kæri lesandi að gefa þessari hugsun tækifæri, þó ekki nema fyrir trúarlegt umburðarlyndi.) Til eru fyrirbæri sem hafa verðmæti óháð notagildi þeirra, óháð okkur mönnunum. Verðmæti þeirra felast í tilvist þeirra og engu öðru. Sumir menn stranda á þessu og geta ekki hugsað sér að verðmæti geti verið óháð manninum, en eins væri hægt að líta svo á að þar sé frekar um að ræða takmarkað ímyndunarafl og siðferðisþroska viðkomandi, en heimsku eða einfaldleika náttúruverndara.

Við mennirnir höfum komist á það stig að við getum með tiltölulega einföldum hætti valdið gríðarlegri röskun á heild lífríkisins og skilyrðum annarra lífvera til að blómstra. Í ljósi þessa valds og máttar okkar til eyðileggingar, er okkur það skylt að sýna náttúrunni tillitssemi. Við eigum að koma fram við náttúruna af virðingu og reyna að takmarka þá röskun sem við völdum.

Í því felst í grundvallaratriðum ferns konar hegðun af hendi okkar mannanna:

1.Við reynum að takmarka neyslu okkar og gæta að "gerviþörfunum".

2.Við reynum að takmarka umsvif okkar og ekki menga eða spilla umhverfi utan okkar athafnasvæðis.

3.Þegar neysla okkar og umsvif hafa valdið skaða reynum við að bæta fyrir hann.

4.Við reynum í hvívetna að leyfa náttúrunni að hafa sinn gang þar sem ekki liggur lífið við.

Þessi viðhorf eru ekki í andstöðu við manninn. Þau þýða ekki að maðurinn þurfi að víkja eða að náttúran gangi fyrir. Þau þýða að maðurinn þarf að gæta náttúrunnar sem þess viðkvæma fyrirbæris sem hún er. Þau þýða að þegar við stöndum frammi fyrir valkostum verðum við að reikna hagsmuni náttúrunnar inn í valið, þótt hún geti ekki sjálf tjáð sig.

Náttúruvernd þýðir þannig að í stað þess að velja auðveldar lausnir skógarhöggs, námuvinnslu úr yfirborðinu, stóriðju og sífellds ágangs á auðlindir, reynum við frekar að nýta ímyndunaraflið og hugvitið til að skapa tækifæri. Það er til dæmis staðreynd að Vesturlandabúar eiga nóg af flugvélum, bílum og öðrum hlutum sem búnir eru til úr málmum og efnasamböndum, en við eigum ekki nóg af vísindalegum framförum, framförum mannsandans og slíku. Í okkar heimi er efnisleg neysla alveg nógu mikil og vel þess virði að huga meir að raunverulegum þörfum mannsins.

Ég trúi því ekki að hagvöxtur sé endanlegur mælikvarði á hamingju fólks og félagsfræðilegar og hagfræðilegar rannsóknir hafa sýnt fram á að svo er ekki. Í einu landi getur bæði rúmast mikill hagvöxtur og samfara honum aukin vanlíðan almennings. Vissulega er erfiðara að mæla vísa eins og samfélagslega meðvitund, læsi og lesskilning og upplýsingu samfélaga, en þar er mun meiri hamingju að finna en í aukningu á verðmæti þjóðarframleiðslu.

Viðhorf náttúruverndarsinna eru viðhorf einstaklinga sem leggja áherslu á margt annað en efnisleg gæði. Náttúruverndarsinnar hugsa lítið um peninga, föt, bíla eða flottheit. Þeir vita lítið um hvað er flott eða hvað er "inn" og eru ekki upp til hópa sérlega góðir í að tjá sig á þann kaldhæðna og óeinlæga hátt sem þykir flottur í nútímasamfélagi, sem reynir sífellt að firra sig tilfinningum til að réttlæta neysluna.

Náttúruverndarsinnar vilja ekki að fólk flæmist úr sveitunum, heldur viljum við að fólkið sjálft finni lausnir í sátt við sitt umhverfi. Nú eru sveitungar mínir Skagfirðingar að tala um fyrirhugaða Skatastaðavirkjun og Valgerður Sverrisdóttir hoppar hæð sína af kæti í einlægri stóriðjuhyggju sinni. Fólki hefur fjölgað í Skagafirði undanfarið. Atvinnuástandið er alls ekki slæmt og þar eru ferðaþjónusta og menntasetur í örum vexti. Hvers vegna að byggja undir eina atvinnugrein með því að skemma fyrir annarri?


Göngu-Hrólfur hinn minni - Viðhorf

"Þegar maður leitar til prests reynir hann ekki að skoða fortíðina, heldur reynir hann að gefa manni raunveruleg tól til að takast á við lífið. Vopn eins og æðruleysi, trú, von, kærleik og kjark."

Ég á í undarlegu ástarsambandi við göngutúra. Ég elska að ganga milli staða, en ég hef alveg hræðilega tilhneigingu til að drolla svo lengi að ég neyðist til að aka þangað sem ég er að fara. Það leiðist mér, því fátt er mér óljúfara en að keyra stuttar vegalengdir ef ekki viðrar til þeim mun meiri kalsára og vosbúðar.

Mér hefur alltaf fundist umferðarmenning höfuðborgarinnar minna á enska matargerðarlist, bandaríska réttlætiskennd eða þýskan húmor. Hún er eiginlega fullkomlega misheppnuð frá upphafi til enda. Kannski er bíllinn einhvers konar höll Íslendingsins, staðurinn þar sem hann er kóngur og ríkir einn yfir sínum veruleika. Nógu fjári eru margir einir í bílunum sínum.

Ég hef stundum lent í því að aka inn á Laugaveginn á daginn. Það eru stór mistök, því Laugavegurinn er stútfullur af fólki sem er að leita að hinu heilaga grali bílastæðanna, bílastæðinu sem er inni í búðinni, við hliðina á flíkinni sem það ætlaði að kaupa sér en átti eftir að leita að. Fólk ekur hring eftir hring Laugaveg, Lækjargötu, Hverfisgötu, Snorrabraut og aftur inn á Laugaveg í stað þess að stoppa einhvers staðar, fara út úr bílnum og labba einhverja fimmtíu metra að búðinni. "Það er alltaf svo leiðinlegt veður á Íslandi," segir einn, "svo langt milli staða," vælir annar. Bansett húmbúkk er þetta, húmbúkk og væl. Áar mínir gengu á sauðskinnsskóm þvert yfir hálendið til að ná í nokkrar rollur eða kíkja í teiti. Mönnum ætti ekki að vera vorkunn að bregða undir sig betri fætinum í stað þess að bíða dauða síns bak við stýrið.

Eitt af mínum uppáhaldsorðum er orðið "lífsstílssjúkdómur". Það minnir mig alltaf á Innlit-Útlit, þáttinn þar sem orðið "já" er sagt oftar en í brúðkaupsþættinum Já, og því fylgir ævinlega orðið "æðislegt". Hjartasjúkdómar, bakverkir, brjóstsviði, taugaveiklun, anorexía, búlimía og kvíðaröskun eru allt prýðileg dæmi um þá kvilla sem fylgja okkar firrtu tímum. Nú gætu sumir sett upp svipinn margfræga og sagt: "Æi, er hann Svavar nú að fara að segja okkur að heimur versnandi fari eins og allir hinir?" En nei, ég er ekki að fara að segja það. Vonbrigði mín snúast ekki um það að heimurinn fari versnandi, heldur að hann batni ekki hætishót þrátt fyrir allar okkar tækniframfarir.

Fólk situr allan daginn eða vinnur í vondri líkamsstöðu, oft einhæfa vinnu með lítilli hreyfingu. Svo keyrir það á bílunum sínum í líkamsrækt og eyðir þar klukkutímum sem það hefði kannski bara átt að nota til að labba í vinnuna. Gönguferðir í vinnuna hreinsa hugann og gefa manni hugmyndir, þær hjálpa manni að sjá hlutina í öðru ljósi og lífga upp á andann.

Á dögunum sat ég í leigubíl (aldrei þessu vant) og sá vin minn gangandi, hann var á leið í strætó niður í bæ og ég bauð honum að hoppa upp í bílinn. Því næst brugðum við á örsnöggt spjall um lífið og tilveruna og rifjuðum upp stöðu mála frá því við hittumst síðast fyrir rúmu ári.

Félaginn hafði lagt stund á sálfræði en nýverið fært sig yfir í guðfræðina. Ég spurði hann hvort markmið námsins væri að verða sálusorgari og hann játti því.

Nú er ég ekki mikill kirkjunnar maður, en ég sá allt í einu fyrir mér að góður prestur getur gert ótrúlega margt sem sálfræðingar gætu jafnvel flækt fyrir okkur.

Einn af lífsstílssjúkdómunum í dag er þessar endalausu vangaveltur um hvers vegna við erum eins og við erum. Fólk fer úr vinnunni sinni og dvelur langdvölum uppi í sófa hjá fólki sem reynir að draga upp úr því fortíðina og reyna að komast til botns í hlutunum. Af hverju erum við að því? Hvers vegna ekki að lifa í núinu og í framtíðinni?

Þess vegna finnst mér að í mörgum tilfellum geti prestar eða trúmenn gert mikið gagn. Þegar maður leitar til prests reynir hann ekki að skoða fortíðina, heldur reynir hann að gefa manni raunveruleg tól til að takast á við lífið. Vopn eins og æðruleysi, trú, von, kærleik og kjark. Þetta eru allt mikilvægir eiginleikar sem við þurfum að temja okkur í stað þess að velta okkur upp úr eigin vandamálum og væla yfir þeim í sífellu. Það má hver sem er vita að ég er sjálfur ekki barnanna bestur þegar kemur að því að velta mér upp úr sjálfsvorkunn öðru hvoru.

Ég fagnaði því þessari ákvörðun vinar míns, því hann er bæði hjartahlýr og laus við alla helstu fordóma sem prýða því miður suma einstaklinga í hans nýju starfsstétt. Ég held að hann eigi svo sannarlega eftir að gera heiminum mikið gagn.

Þegar ég var í háskóla blundaði í mér lúmsk löngun til að gerast prestur og hjálpa fólki í kreppu með því að færa því von og styrk. Ég hætti við sökum skorts á trú á guðsorð, sem mér skilst að sé nokkuð mikið grundvallaratriði í hæfniskröfum presta. Ég trúi í hjarta en ekki í höfði, þótt ég trúi því að höfuð og hjarta séu ekki aðskilin líffæri þegar kemur að skynseminni. Ég er þannig klofinn hið innra gagnvart guði, eins og svo margir breyskir menn.

Þetta stutta viðhorf var í boði göngutúrs frá Morgunblaðshúsinu að Austurbæjarbíói gamla og síðan heim. Og ég á meira að segja einn pistil og tvö ný dægurlög inni eftir þessa sömu ferð. Já, göngutúrar geta svo sannarlega leitt af sér hugleiðingar og hugmyndir og ég hvet alla sem lesa þessi orð til að búa til sína eigin litlu bíllausu daga, til að lífga upp á tilveru sína og hressa líkama og sál.


Eðlilegur eða venjulegur - Viðhorf

Og einhvers staðar í hyldýpi heilans lokar einhver heilastöð á þann möguleika að nokkuð sem þessi óvenjulega manneskja segir geti verið skynsamlegt, því hún er svo furðuleg.

Þegar ég las á dögunum ummæli Valgerðar Sverrisdóttur um að "batnandi mönnum" væri "best að lifa" varð ég ofboðslega reiður. Ég túlkaði ummælin sem svo að fólk sem ekki vildi stóriðju, álver og virkjanir út um allar trissur væri vont, heimskt eða sjúkt fólk, enda örugglega það sem blessunin átti við. Ég er ekki frá því að ég sé svolítið sloj af einhvers konar þrálátri pest náttúruástar. Ég skrifaði viðhorf í blindri reiði þar sem ég bölsótaðist í réttlátri kaldhæðni út í Valgerði og allar hennar ranghugmyndir. Sérstaklega var ég reiður út í þá fölsku og hræsnisfullu "gjöf" sem stækkun Skaftafellsþjóðgarðs er. Ég gæti eins gefið ættingjum mínum tómar kókómjólkurfernur í jólagjöf og kallað þær gjafir, svo mikið gildi hefur sú "friðun" sem felst í stækkuninni.

Sem betur fer tafðist birting Viðhorfsins og vitur og góður maður benti mér á að sjaldan væri gott að skrifa í uppnámi. Svo rann af mér mesta reiðin og ég fylltist meiri vorkunn og samúð en nokkru öðru. Og ég ákvað að halda mig við skrif um hið mannlega, en þó ekki svo óskylt efninu. Í anda fyrri skrifa minna ákvað ég að virkja breyskleikann, virkja afurð reiði minnar og halda áfram skrifum um fólk og hið mannlega.

Náttúruverndarsinnar eru oft skrýtið fólk, sérstaklega þeir sem láta til sín taka. Þetta má í raun segja um flesta svonefnda "aktívista" eða "atvinnumótmælendur", eins og sumir hafa kosið að kalla þá, fólk sem tekur virkan þátt í heitum málefnum og lætur sig þau varða. Við eigum það til að koma undarlega fyrir, virðast sundurleitur hópur íklæddur undarlegum fötum, fæst okkar í jakkafötum og enn færri samsamast viðteknum gildum og venjum samfélagsins, því við höfum ólíkt gildismat. Það er vegna þessa ólíka gildismats sem við höfum hátt og tökum upp á ýmiss konar mótmælum. Þeir sem eru nær venjunni í sínu gildismati eru kannski bara svekktir út af stóriðjuáformunum, en ekki nógu svekktir til að rjúka út á göturnar. Það er þetta ólíka gildismat sem knýr áfram samfélagsbreytingar.

Einu sinni þótti þrælahald sjálfsagt og fólk sem barðist gegn því þótti í besta falli furðulegt. Þá þótti hugmyndin um kosningarétt kvenna hræðileg og Súffragetturnar voru taldar hinar mestu skessur. Réttindabarátta homma og lesbía var líka lengi vel málefni "sérstaks fólks". Umhverfishreyfingin er í raun á svipuðum stað í dag. Við erum dálitlir sérvitringar, fólk sem hefur aðra lífsreynslu en margt fram að færa. Við erum kannski ekki "venjuleg", en við erum "eðlileg". Við fylgjum okkar eðli, okkar skynjun og tilfinningum, þó við séum ekki eins og fólk er flest. Við erum gædd heilbrigðri skynsemi, en við byggjum hana bara á öðruvísi reynslu.

Það er erfitt að vera öðruvísi, að vera ekki venjulegur. Þegar sjónvarpið sýnir frá mótmælum náttúruverndarsinna, friðarsinna eða annarra "atvinnumótmælenda" og tekur viðtal við þá, er það fyrsta sem fólk hugsar gjarnan: "En hvað þetta er skrýtin manneskja!" Og einhvers staðar í hyldýpi heilans lokar einhver heilastöð á þann möguleika að nokkuð sem þessi óvenjulega manneskja segir geti verið skynsamlegt, því hún er svo furðuleg. Og eins og allir vita getur enginn óvenjulegur maður verið skynsamur. Hins vegar gæti snyrtilegur karlmaður í jakkafötum sagt að jörðin væri flöt og sjónvarpsáhorfendur myndu hreinlega þurfa að hugsa sig tvisvar um áður en þeir ályktuðu að hann hlyti að hafa verið að grínast, þessi snyrtilegi venjulegi maður.

Fólk sem er ekki venjulegt er þannig gjarnan sett í nokkuð ójafna stöðu.

Allir hafa fordóma, bæði meðvitaða og ómeðvitaða og fordómar beinast gegn því sem er framandi. Fólk sem berst fyrir málstað, fólk með stórar og ríkar hugsjónir um náttúruvernd, mannréttindi eða friðarstarf, setur veraldleg gæði gjarnan aftar í röðina. Þetta fólk verður fyrir vikið gjarnan talið skrýtið í samfélagi sem snýst um bíla, hús, peninga og flott líf. Forgangsröðunin er önnur og þar af leiðandi er fólkið tortryggilegt. Það lítur öðruvísi út, við þekkjum það á götu sem ofvita eða "tilfinningaverur", "lopapeysuhippa" og "listaspírur úr 101", jafnvel "MH-inga". En þetta er eðlilegt fólk með eðlilegar þarfir og tilfinningar, ríka réttlætiskennd og skynsemi. Þetta fólk eyðir bara gjarnan tíma sínum í annað en að leita að flottustu fötunum, eltast við peninga og læra að tala mál nútímamannsins.

Ykkur að segja vildi ég mun frekar vera eðlilegur en venjulegur. Þegar mér berast fréttir af breskum þingmönnum sem finnast bráðkvaddir með epli í munninum íklæddir einhvers konar leðurdulum eða grísabúningi er það fyrsta sem ég hugsa "Jæja, var nú enn einn "íhaldsnormallinn" að springa?" Fólk sem rembist við að vera venjulegt og afneitar því algjörlega sem eðlið býður því, frestar einungis hinu óhjákvæmilega, að eðlið springi út í allri sinni mekt. En eins og eðlið er fagurt ef því er hleypt út jafnt og þétt getur það orðið algjör gröftur og viðbjóður ef menn halda því inni þangað til það springur.

Það að vera eðlilegur er mannleg nauðsyn, að segja það sem manni finnst, leyfa sér að upplifa og dreyma og hrópa út í loftið, hlæja hátt (eða lágt, ef manni býður svo við að horfa) og lifa lífinu lifandi. Það að vera venjulegur er hins vegar samfélagsleg ánauð, að kreista fram tilveru sína inni í fyrirfram sniðnu formi. Sýnum óvenjulegu fólki umburðarlyndi og skilning og tökum mark á því.


Sitt lagt af mörkum

Ég hef ákveðið að leggja mitt af mörkum til að hjálpa Blog.is af stað. Þrátt fyrir að venjulega tæmi ég þanka mína út á aðra slóð, langar mig a.m.k. til að skella viðhorfspistlum hér inn og kannski einhverjum pælingum.

Sjáum til hvernig þetta gengur.

Og svo ég taki það strax fram...

Ég er enginn snillingur eða "heimspekingur". Ég er bara ósköp venjulegur blaðamaður sem notar stundum húmor sem leið til að setja hluti í annað samhengi. Ég ætlast ekki til að orðum mínum sé tekið sem tilraun til að setja fram algildan sannleik um lífið. Enginn skyldi ætla mér röksnilld Sókratesar, Platóns eða David Hume. Þó ég "skarti" heimspekigráðu, sé eftir henni leitað, hef ég aldrei gert mikið úr henni, það er líka hálf hallærislegt að flagga og veifa gráðum.

Bestu Kveðjur,
Svavar Knútur


Fyrsta bloggfærsla

Þessi færsla er búin til af kerfinu þegar notandi er stofnaður. Henni má eyða eða breyta að vild.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband