Sjálfstæði - Viðhorf

Eitt af því besta við unglinga er að það er ekki ennþá búið að troða þeirri lygi í hausinn á þeim að það sé ekki hægt að skemmta sér án áfengis. En því miður munu langfæstir þeirra standast þá lygi.

Á föstudagskvöldið spilaði ég með hljómsveitinni minni fyrir árshátíð hjá unglingum í grunnskóla. Þetta voru ótrúlega hressir krakkar, opnir og glaðir og kátir. Þau dönsuðu og sungu eins og þau ættu lífið að leysa og þau áttu svo sannarlega skilið alla þá gleði sem þau sýndu.

Það var hrein unun fyrir okkur félagana að skemmta þessu unga fólki, ekki síst vegna þess að þarna var um að ræða hóp fólks þar sem enginn var drukkinn. Allir voru allsgáðir, kátir og eina víman var gleðivíman sem fylgir því að dansa og skemmta sér í góðra vina hópi. Vissulega voru nokkrir krakkar í salnum ennþá feimnir og ekki tilbúnir að sleppa sér, en það er eðlilegur fylgifiskur unglingsáranna.

Þegar ég var unglingur var ég ekki byrjaður að drekka. Satt að segja byrjaði ég ekki að drekka fyrr en ég var nítján ára (já, ég er líka lögbrjótur). Ég er feginn að það æxlaðist þannig. Eftir á að hyggja var það afskaplega skynsamleg ákvörðun, þótt það hafi verið erfitt á stundum, enda mikill hópþrýstingur í gangi. Og hópþrýstingur er ekki endilega hópur af krökkum ýtandi að manni vínflösku og segjandi: Kommon, vertu kúl. Hópþrýstingur er líka sú tilfinning að maður sé á einhvern hátt asnalegur, utangátta, skrýtinn af því maður er ekki að taka þátt í einhverju sem öllum öðrum virðist sjálfsagt.

Ég man sérstaklega vel eftir einu kvöldi þegar ég var fjórtán eða fimmtán ára. Ég var bara í góðum gír í Kraftgallanum mínum úti í bæ hnoðandi snjóbolta, í góðum göngutúr, en jafnaldrar mínir voru allt í einu farnir að ráfa um með kókflöskur sem voru ekki lengur bara kókflöskur. Þau voru farin að slást, rífast hátt og veltast um á götunni. Þau voru líka farin að halda partí og mæta í partí þar sem stemmningin var allt önnur en sú sem ég áður þekkti. Allt í einu var maður svona hálfpartinn einn í heiminum innan um fólk sem bjó í allt öðrum heimi.

Eitt af því besta við unglinga er að það er ekki ennþá búið að troða þeirri lygi í hausinn á þeim að það sé ekki hægt að skemmta sér án áfengis. Síðan ég byrjaði að drekka fyrir meira en tíu árum hef ég ekkert verið að flýta mér við það heldur. Mér nægir einn góður bjór í góðra vina hópi, jafnvel tveir. Svo er þetta bara spurning um að skemmta sér vel og gleðjast með vinum sínum. En það er bara svo ofboðslega mikið af fólki sem hreinlega getur ekki lengur skemmt sér nema öskufullt. Og það er sorglegt að sjá. Það að skemmta sér án áfengis virðist í samfélagi hinna fullorðnu frekar vera undantekning en hefð.

Það er stórskemmtilegt að vinna með unglingum sem enn eru lausir við þessa heimskulegu blekkingu. Unglingar hafa áhugaverða og skemmtilega heimssýn og þeir kunna svo sannarlega að skemmta sér vel saman, strax og feimninni sleppir. En feimnin er líka eðlilegur fylgifiskur aldursins, lamandi og nístandi, svo freistingin hlýtur að vera mikil að finna eitthvað töfralyf sem slakar á henni.

Ég skil ósköp vel hvers vegna það er svona auðvelt að grípa til hömlulosandi drykkja til að eiga auðveldara með samskipti við jafningjana. En því miður endar það allt of oft svo að það verður eina leiðin. Unglingsárin eiga að vera árin sem við lærum samskiptin, en þökk sé áfenginu sleppa ósköp margir við að temja sér þá vandlærðu list.

Ekki veit ég ástæðu þess að neysla áfengis átti ekki við mig sem ungling. Ef eitthvað, var ég feimnari en gengur og gerist, dálítið utangátta. Þá var ég svo sannarlega enginn snillingur í samskiptum við hitt kynið. Tilhugalíf hins fjórtán ára Svavars fólst í snjóglímu og helst að kaffæra stelpur í snjó. Fimmtán ára réð feimnin ein.

Það er fátt sem mig langar meira en að hjálpa unglingum að skilja að það er enginn að segja þeim að byrja aldrei að drekka. Heldur bara það að bíða á meðan þau eru að taka út þennan mikilvægasta þroska ævinnar. Hversu marga þroskahefta menn hefur maður ekki hitt niðri í bæ, sem betur hefðu beðið aðeins með að byrja að drekka? Eða konur? Það er nefnilega mikil hætta á því að félagslegur þroski fólks heftist alvarlega þegar það læsist inni í þeim lífsstíl að djamm og drykkja séu einu valkostirnir þegar kynnast skal nýju fólki. Að ekkert annað sé hægt að gera um helgar en að drekka frá sér allt vit og eyða næstu dögum í þynnku.

Nú er ég ekki að segja að minn félagsþroski sé neitt sérstakur, enda hef ég alltaf verið óttalega mikill furðufugl. En ég er nokkuð viss um að ég væri síst betur staddur hefði ég byrjað að drekka fjórtán eða fimmtán ára eins og svo margir jafnaldrar mínir.

Ég vildi að ég gæti með einhverjum hætti komið þeim fróðleik til unglinganna að það liggur ekkert á. Endilega að nota þessi nokkru áhyggjulausu ár til þess að læra að láta sér líða vel með sjálfan sig. Vinkona mín sagði um daginn við mig að til þess að blómstra í sambandi verði maður að læra að vera einn. Það gæti eins vel gilt um neyslu áfengis. Til þess að vera heilbrigður með víni verður maður að geta verið heilbrigður án þess.

Allt of margir verða algjörir leiðindadurgar og svín þegar þeir drekka. Og nú meina ég þetta ekki bara í karlkyni. En unglingar eru (sem betur fer) gæddir óseðjanlegri forvitni og þörf til að reka sig á hlutina. Þeir láta sko engan fullorðinn segja sér hvað er rétt og hvað er rangt. Og það er einmitt það sem gerir unglinga svo frábæra. En maður vildi bara óska þess að þeir tækju mark á okkur á þessari einu vígstöð.

Ungt fólk þarf vissulega að læra af eigin mistökum. Það á erfitt með að læra af mistökum annarra. Því miður er það að byrja snemma að drekka mistök sem er mjög erfitt að læra af, því þau leiða fólk í hugarfar. Og hugarfar er eins og hjólför, það er alltaf erfitt að komast upp úr þeim ef þau eru djúp og fjölfarin. Hið sanna frelsi felst í því að forðast þessi hjólför. Og því segi ég við unglingana: Búið til ykkar eigin vegi, ekki gera eins og fullorðna fólkið. Þið sjáið hvað það er glatað í hjólförunum sínum. Þorið að vera sjálfstæð.

Svavar Knútur Kristinsson (svavar@mbl.is)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Frábær pistill. Mikið er ég sammála og ég vildi að ég hefði vitað þá.. allt sem ég veit í dag. Sem er samt ekkert voða mikið í samhengi alls!

Guðrún Birna Kjartansdóttir (IP-tala skráð) 6.4.2006 kl. 16:28

2 identicon

....jemm þetta með unglingana er og verður að haldast í umræðunni ávallt....skrítileiki samfélagsins eykst og hætturnar sem steðja að líka....þetta með sjálfstæðið verður að leggja ríka áherslu á og breyta þessu ferli uppeldismötunar strax!

Thelma Björk (IP-tala skráð) 6.4.2006 kl. 19:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband