Eðlilegur eða venjulegur - Viðhorf

Og einhvers staðar í hyldýpi heilans lokar einhver heilastöð á þann möguleika að nokkuð sem þessi óvenjulega manneskja segir geti verið skynsamlegt, því hún er svo furðuleg.

Þegar ég las á dögunum ummæli Valgerðar Sverrisdóttur um að "batnandi mönnum" væri "best að lifa" varð ég ofboðslega reiður. Ég túlkaði ummælin sem svo að fólk sem ekki vildi stóriðju, álver og virkjanir út um allar trissur væri vont, heimskt eða sjúkt fólk, enda örugglega það sem blessunin átti við. Ég er ekki frá því að ég sé svolítið sloj af einhvers konar þrálátri pest náttúruástar. Ég skrifaði viðhorf í blindri reiði þar sem ég bölsótaðist í réttlátri kaldhæðni út í Valgerði og allar hennar ranghugmyndir. Sérstaklega var ég reiður út í þá fölsku og hræsnisfullu "gjöf" sem stækkun Skaftafellsþjóðgarðs er. Ég gæti eins gefið ættingjum mínum tómar kókómjólkurfernur í jólagjöf og kallað þær gjafir, svo mikið gildi hefur sú "friðun" sem felst í stækkuninni.

Sem betur fer tafðist birting Viðhorfsins og vitur og góður maður benti mér á að sjaldan væri gott að skrifa í uppnámi. Svo rann af mér mesta reiðin og ég fylltist meiri vorkunn og samúð en nokkru öðru. Og ég ákvað að halda mig við skrif um hið mannlega, en þó ekki svo óskylt efninu. Í anda fyrri skrifa minna ákvað ég að virkja breyskleikann, virkja afurð reiði minnar og halda áfram skrifum um fólk og hið mannlega.

Náttúruverndarsinnar eru oft skrýtið fólk, sérstaklega þeir sem láta til sín taka. Þetta má í raun segja um flesta svonefnda "aktívista" eða "atvinnumótmælendur", eins og sumir hafa kosið að kalla þá, fólk sem tekur virkan þátt í heitum málefnum og lætur sig þau varða. Við eigum það til að koma undarlega fyrir, virðast sundurleitur hópur íklæddur undarlegum fötum, fæst okkar í jakkafötum og enn færri samsamast viðteknum gildum og venjum samfélagsins, því við höfum ólíkt gildismat. Það er vegna þessa ólíka gildismats sem við höfum hátt og tökum upp á ýmiss konar mótmælum. Þeir sem eru nær venjunni í sínu gildismati eru kannski bara svekktir út af stóriðjuáformunum, en ekki nógu svekktir til að rjúka út á göturnar. Það er þetta ólíka gildismat sem knýr áfram samfélagsbreytingar.

Einu sinni þótti þrælahald sjálfsagt og fólk sem barðist gegn því þótti í besta falli furðulegt. Þá þótti hugmyndin um kosningarétt kvenna hræðileg og Súffragetturnar voru taldar hinar mestu skessur. Réttindabarátta homma og lesbía var líka lengi vel málefni "sérstaks fólks". Umhverfishreyfingin er í raun á svipuðum stað í dag. Við erum dálitlir sérvitringar, fólk sem hefur aðra lífsreynslu en margt fram að færa. Við erum kannski ekki "venjuleg", en við erum "eðlileg". Við fylgjum okkar eðli, okkar skynjun og tilfinningum, þó við séum ekki eins og fólk er flest. Við erum gædd heilbrigðri skynsemi, en við byggjum hana bara á öðruvísi reynslu.

Það er erfitt að vera öðruvísi, að vera ekki venjulegur. Þegar sjónvarpið sýnir frá mótmælum náttúruverndarsinna, friðarsinna eða annarra "atvinnumótmælenda" og tekur viðtal við þá, er það fyrsta sem fólk hugsar gjarnan: "En hvað þetta er skrýtin manneskja!" Og einhvers staðar í hyldýpi heilans lokar einhver heilastöð á þann möguleika að nokkuð sem þessi óvenjulega manneskja segir geti verið skynsamlegt, því hún er svo furðuleg. Og eins og allir vita getur enginn óvenjulegur maður verið skynsamur. Hins vegar gæti snyrtilegur karlmaður í jakkafötum sagt að jörðin væri flöt og sjónvarpsáhorfendur myndu hreinlega þurfa að hugsa sig tvisvar um áður en þeir ályktuðu að hann hlyti að hafa verið að grínast, þessi snyrtilegi venjulegi maður.

Fólk sem er ekki venjulegt er þannig gjarnan sett í nokkuð ójafna stöðu.

Allir hafa fordóma, bæði meðvitaða og ómeðvitaða og fordómar beinast gegn því sem er framandi. Fólk sem berst fyrir málstað, fólk með stórar og ríkar hugsjónir um náttúruvernd, mannréttindi eða friðarstarf, setur veraldleg gæði gjarnan aftar í röðina. Þetta fólk verður fyrir vikið gjarnan talið skrýtið í samfélagi sem snýst um bíla, hús, peninga og flott líf. Forgangsröðunin er önnur og þar af leiðandi er fólkið tortryggilegt. Það lítur öðruvísi út, við þekkjum það á götu sem ofvita eða "tilfinningaverur", "lopapeysuhippa" og "listaspírur úr 101", jafnvel "MH-inga". En þetta er eðlilegt fólk með eðlilegar þarfir og tilfinningar, ríka réttlætiskennd og skynsemi. Þetta fólk eyðir bara gjarnan tíma sínum í annað en að leita að flottustu fötunum, eltast við peninga og læra að tala mál nútímamannsins.

Ykkur að segja vildi ég mun frekar vera eðlilegur en venjulegur. Þegar mér berast fréttir af breskum þingmönnum sem finnast bráðkvaddir með epli í munninum íklæddir einhvers konar leðurdulum eða grísabúningi er það fyrsta sem ég hugsa "Jæja, var nú enn einn "íhaldsnormallinn" að springa?" Fólk sem rembist við að vera venjulegt og afneitar því algjörlega sem eðlið býður því, frestar einungis hinu óhjákvæmilega, að eðlið springi út í allri sinni mekt. En eins og eðlið er fagurt ef því er hleypt út jafnt og þétt getur það orðið algjör gröftur og viðbjóður ef menn halda því inni þangað til það springur.

Það að vera eðlilegur er mannleg nauðsyn, að segja það sem manni finnst, leyfa sér að upplifa og dreyma og hrópa út í loftið, hlæja hátt (eða lágt, ef manni býður svo við að horfa) og lifa lífinu lifandi. Það að vera venjulegur er hins vegar samfélagsleg ánauð, að kreista fram tilveru sína inni í fyrirfram sniðnu formi. Sýnum óvenjulegu fólki umburðarlyndi og skilning og tökum mark á því.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband