29.3.2006 | 15:37
Göngu-Hrólfur hinn minni - Viðhorf
"Þegar maður leitar til prests reynir hann ekki að skoða fortíðina, heldur reynir hann að gefa manni raunveruleg tól til að takast á við lífið. Vopn eins og æðruleysi, trú, von, kærleik og kjark."
Mér hefur alltaf fundist umferðarmenning höfuðborgarinnar minna á enska matargerðarlist, bandaríska réttlætiskennd eða þýskan húmor. Hún er eiginlega fullkomlega misheppnuð frá upphafi til enda. Kannski er bíllinn einhvers konar höll Íslendingsins, staðurinn þar sem hann er kóngur og ríkir einn yfir sínum veruleika. Nógu fjári eru margir einir í bílunum sínum.
Ég hef stundum lent í því að aka inn á Laugaveginn á daginn. Það eru stór mistök, því Laugavegurinn er stútfullur af fólki sem er að leita að hinu heilaga grali bílastæðanna, bílastæðinu sem er inni í búðinni, við hliðina á flíkinni sem það ætlaði að kaupa sér en átti eftir að leita að. Fólk ekur hring eftir hring Laugaveg, Lækjargötu, Hverfisgötu, Snorrabraut og aftur inn á Laugaveg í stað þess að stoppa einhvers staðar, fara út úr bílnum og labba einhverja fimmtíu metra að búðinni. "Það er alltaf svo leiðinlegt veður á Íslandi," segir einn, "svo langt milli staða," vælir annar. Bansett húmbúkk er þetta, húmbúkk og væl. Áar mínir gengu á sauðskinnsskóm þvert yfir hálendið til að ná í nokkrar rollur eða kíkja í teiti. Mönnum ætti ekki að vera vorkunn að bregða undir sig betri fætinum í stað þess að bíða dauða síns bak við stýrið.
Eitt af mínum uppáhaldsorðum er orðið "lífsstílssjúkdómur". Það minnir mig alltaf á Innlit-Útlit, þáttinn þar sem orðið "já" er sagt oftar en í brúðkaupsþættinum Já, og því fylgir ævinlega orðið "æðislegt". Hjartasjúkdómar, bakverkir, brjóstsviði, taugaveiklun, anorexía, búlimía og kvíðaröskun eru allt prýðileg dæmi um þá kvilla sem fylgja okkar firrtu tímum. Nú gætu sumir sett upp svipinn margfræga og sagt: "Æi, er hann Svavar nú að fara að segja okkur að heimur versnandi fari eins og allir hinir?" En nei, ég er ekki að fara að segja það. Vonbrigði mín snúast ekki um það að heimurinn fari versnandi, heldur að hann batni ekki hætishót þrátt fyrir allar okkar tækniframfarir.
Fólk situr allan daginn eða vinnur í vondri líkamsstöðu, oft einhæfa vinnu með lítilli hreyfingu. Svo keyrir það á bílunum sínum í líkamsrækt og eyðir þar klukkutímum sem það hefði kannski bara átt að nota til að labba í vinnuna. Gönguferðir í vinnuna hreinsa hugann og gefa manni hugmyndir, þær hjálpa manni að sjá hlutina í öðru ljósi og lífga upp á andann.
Á dögunum sat ég í leigubíl (aldrei þessu vant) og sá vin minn gangandi, hann var á leið í strætó niður í bæ og ég bauð honum að hoppa upp í bílinn. Því næst brugðum við á örsnöggt spjall um lífið og tilveruna og rifjuðum upp stöðu mála frá því við hittumst síðast fyrir rúmu ári.
Félaginn hafði lagt stund á sálfræði en nýverið fært sig yfir í guðfræðina. Ég spurði hann hvort markmið námsins væri að verða sálusorgari og hann játti því.
Nú er ég ekki mikill kirkjunnar maður, en ég sá allt í einu fyrir mér að góður prestur getur gert ótrúlega margt sem sálfræðingar gætu jafnvel flækt fyrir okkur.
Einn af lífsstílssjúkdómunum í dag er þessar endalausu vangaveltur um hvers vegna við erum eins og við erum. Fólk fer úr vinnunni sinni og dvelur langdvölum uppi í sófa hjá fólki sem reynir að draga upp úr því fortíðina og reyna að komast til botns í hlutunum. Af hverju erum við að því? Hvers vegna ekki að lifa í núinu og í framtíðinni?
Þess vegna finnst mér að í mörgum tilfellum geti prestar eða trúmenn gert mikið gagn. Þegar maður leitar til prests reynir hann ekki að skoða fortíðina, heldur reynir hann að gefa manni raunveruleg tól til að takast á við lífið. Vopn eins og æðruleysi, trú, von, kærleik og kjark. Þetta eru allt mikilvægir eiginleikar sem við þurfum að temja okkur í stað þess að velta okkur upp úr eigin vandamálum og væla yfir þeim í sífellu. Það má hver sem er vita að ég er sjálfur ekki barnanna bestur þegar kemur að því að velta mér upp úr sjálfsvorkunn öðru hvoru.
Ég fagnaði því þessari ákvörðun vinar míns, því hann er bæði hjartahlýr og laus við alla helstu fordóma sem prýða því miður suma einstaklinga í hans nýju starfsstétt. Ég held að hann eigi svo sannarlega eftir að gera heiminum mikið gagn.
Þegar ég var í háskóla blundaði í mér lúmsk löngun til að gerast prestur og hjálpa fólki í kreppu með því að færa því von og styrk. Ég hætti við sökum skorts á trú á guðsorð, sem mér skilst að sé nokkuð mikið grundvallaratriði í hæfniskröfum presta. Ég trúi í hjarta en ekki í höfði, þótt ég trúi því að höfuð og hjarta séu ekki aðskilin líffæri þegar kemur að skynseminni. Ég er þannig klofinn hið innra gagnvart guði, eins og svo margir breyskir menn.
Þetta stutta viðhorf var í boði göngutúrs frá Morgunblaðshúsinu að Austurbæjarbíói gamla og síðan heim. Og ég á meira að segja einn pistil og tvö ný dægurlög inni eftir þessa sömu ferð. Já, göngutúrar geta svo sannarlega leitt af sér hugleiðingar og hugmyndir og ég hvet alla sem lesa þessi orð til að búa til sína eigin litlu bíllausu daga, til að lífga upp á tilveru sína og hressa líkama og sál.
Meginflokkur: Viðhorf | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:53 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.