Mín græna lífssýn - Viðhorf

Sumir menn geta ekki hugsað sér að verðmæti geti verið óháð manninum, en eins væri hægt að líta svo á að þar sé frekar um að ræða takmarkað ímyndunarafl og siðferðisþroska viðkomandi, en heimsku eða einfaldleika náttúruverndara.

"Þið umhverfissinnarnir eruð á móti öllum framkvæmdum og öllum framförum. Þið eruð á móti fólki! Þið viljið ekki að það sé hægt að búa í þessu landi!" Þessi orð, eða eitthvað svipað, hef ég margoft heyrt þegar ég geri heiðarlega tilraun til að ræða málefni á málefnalegan hátt. Ég treysti því að flestir lesendur geri sér grein fyrir þeim fáránlegu og sorglegu rökvillum sem felast í þessum orðum hér að ofan. Ég treysti því ennfremur að lesendur geri sér grein fyrir ósanngirninni sem felst í þeim og því að þau eiga hvergi heima í rökræðu siðmenntaðra manna.

Ég hef í undanförnum viðhorfum reynt að skýra viss grundvallaratriði um tengsl eða samtvinnun skynsemi og tilfinninga. Grundvallarhugmynd mín er sú að skynsemi geti ekki verið til án tilfinninga, enda séu þær mælikvarði réttlætis, fagurfræði og ástar, sem öll skynsemi hlýtur að hvíla á, ef hún á, á annað borð, að vera mannleg en ekki vélræn.

Ég vil í þessu ljósi beina athygli lesenda að náttúrusýn náttúruverndarsinna. Gjarnan reyna þeir sem hinum megin borðsins standa að uppnefna hana einkar málefnalega "náttúruvernd hinna svörtu sanda" eða "Svokallaðir (eða sjálfskipaðir) umhverfisverndarsinnar" í því skyni að eyðileggja málstaðinn viðmælandans fyrirfram. Þetta er vissulega leitt, en mig langar þó til að reyna að skýra náttúruvernd í stuttu máli.

Náttúruverndarhugsjónin felst ekki í því að vera á móti fólki. Hún felst frekar í eftirfarandi hugsun: Náttúran á sér vissan tilverurétt, óháð manninum. (Ég bið þig kæri lesandi að gefa þessari hugsun tækifæri, þó ekki nema fyrir trúarlegt umburðarlyndi.) Til eru fyrirbæri sem hafa verðmæti óháð notagildi þeirra, óháð okkur mönnunum. Verðmæti þeirra felast í tilvist þeirra og engu öðru. Sumir menn stranda á þessu og geta ekki hugsað sér að verðmæti geti verið óháð manninum, en eins væri hægt að líta svo á að þar sé frekar um að ræða takmarkað ímyndunarafl og siðferðisþroska viðkomandi, en heimsku eða einfaldleika náttúruverndara.

Við mennirnir höfum komist á það stig að við getum með tiltölulega einföldum hætti valdið gríðarlegri röskun á heild lífríkisins og skilyrðum annarra lífvera til að blómstra. Í ljósi þessa valds og máttar okkar til eyðileggingar, er okkur það skylt að sýna náttúrunni tillitssemi. Við eigum að koma fram við náttúruna af virðingu og reyna að takmarka þá röskun sem við völdum.

Í því felst í grundvallaratriðum ferns konar hegðun af hendi okkar mannanna:

1.Við reynum að takmarka neyslu okkar og gæta að "gerviþörfunum".

2.Við reynum að takmarka umsvif okkar og ekki menga eða spilla umhverfi utan okkar athafnasvæðis.

3.Þegar neysla okkar og umsvif hafa valdið skaða reynum við að bæta fyrir hann.

4.Við reynum í hvívetna að leyfa náttúrunni að hafa sinn gang þar sem ekki liggur lífið við.

Þessi viðhorf eru ekki í andstöðu við manninn. Þau þýða ekki að maðurinn þurfi að víkja eða að náttúran gangi fyrir. Þau þýða að maðurinn þarf að gæta náttúrunnar sem þess viðkvæma fyrirbæris sem hún er. Þau þýða að þegar við stöndum frammi fyrir valkostum verðum við að reikna hagsmuni náttúrunnar inn í valið, þótt hún geti ekki sjálf tjáð sig.

Náttúruvernd þýðir þannig að í stað þess að velja auðveldar lausnir skógarhöggs, námuvinnslu úr yfirborðinu, stóriðju og sífellds ágangs á auðlindir, reynum við frekar að nýta ímyndunaraflið og hugvitið til að skapa tækifæri. Það er til dæmis staðreynd að Vesturlandabúar eiga nóg af flugvélum, bílum og öðrum hlutum sem búnir eru til úr málmum og efnasamböndum, en við eigum ekki nóg af vísindalegum framförum, framförum mannsandans og slíku. Í okkar heimi er efnisleg neysla alveg nógu mikil og vel þess virði að huga meir að raunverulegum þörfum mannsins.

Ég trúi því ekki að hagvöxtur sé endanlegur mælikvarði á hamingju fólks og félagsfræðilegar og hagfræðilegar rannsóknir hafa sýnt fram á að svo er ekki. Í einu landi getur bæði rúmast mikill hagvöxtur og samfara honum aukin vanlíðan almennings. Vissulega er erfiðara að mæla vísa eins og samfélagslega meðvitund, læsi og lesskilning og upplýsingu samfélaga, en þar er mun meiri hamingju að finna en í aukningu á verðmæti þjóðarframleiðslu.

Viðhorf náttúruverndarsinna eru viðhorf einstaklinga sem leggja áherslu á margt annað en efnisleg gæði. Náttúruverndarsinnar hugsa lítið um peninga, föt, bíla eða flottheit. Þeir vita lítið um hvað er flott eða hvað er "inn" og eru ekki upp til hópa sérlega góðir í að tjá sig á þann kaldhæðna og óeinlæga hátt sem þykir flottur í nútímasamfélagi, sem reynir sífellt að firra sig tilfinningum til að réttlæta neysluna.

Náttúruverndarsinnar vilja ekki að fólk flæmist úr sveitunum, heldur viljum við að fólkið sjálft finni lausnir í sátt við sitt umhverfi. Nú eru sveitungar mínir Skagfirðingar að tala um fyrirhugaða Skatastaðavirkjun og Valgerður Sverrisdóttir hoppar hæð sína af kæti í einlægri stóriðjuhyggju sinni. Fólki hefur fjölgað í Skagafirði undanfarið. Atvinnuástandið er alls ekki slæmt og þar eru ferðaþjónusta og menntasetur í örum vexti. Hvers vegna að byggja undir eina atvinnugrein með því að skemma fyrir annarri?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband