Pant ekki vera "töff" - Viðhorf

Nú gætu einhverjir haldið að ég væri "gamall íhaldsklerkur úr kalda stríðinu", en ég er tuttugu og átta ára spjátrungur. Ég hef hins vegar ekkert gaman af því þegar fólk horfir á aðra og dæmir þá vegna þess að þeir falla ekki inn í fyrirfram ákveðið mót félagslegrar hlýðni.

Í dálkinum Kirkjustarfi undir Stað og stund hér í blaðinu er svonefnt TTT-starf fyrir ungmenni auglýst, en TTT stendur fyrir töff, töfrandi og taktfast. Fyrsta orðið finnst mér í mikilli mótsögn við tilgang starfsins. Mér finnst einmitt ekkert "töff" eða "kúl" við það að finna trú og eiga í trúarlegu samfélagi.

Nú gæti einhver óvarkár lesandi stoppað og sagt við sjálfan sig: "Jæja, er nú enn einn gáfumaðurinn að gera lítið úr trúnni," en svo er ekki. Ætlun mín er alls ekki að gera lítið úr trú eða neinu öðru sem er andstætt því sem er "töff" eða "kúl." Í öðru lagi er ég sosum enginn gáfumaður.

Hvað er "töff"? Hvað er "kúl"? Hvað felst í þessum hugtökum, sem gegnumsýra vestræn samfélög nútímans? Skeytingarleysi, tilfinningakuldi, fálæti, yfirlæti og hroki eru það sem felst í "kúlinu". Að vera sama um aðra og gera lítið úr tilfinningum og hlýju. Að láta helst sem minnst sjást í mennsku sína og innri mann og leyfa yfirborðinu að njóta sín.

Heilbrigt trúarlegt samfélag ætti ekki að snúast um "töff" og "kúl" heldur einlægni, gæsku, hlýju og opin samskipti þar sem fólk getur sagt það sem í hjarta þess býr án þess að eiga á hættu að verða að athlægi. Ungt fólk á rétt á því að upplifa stað og stund þar sem það getur verið það sjálft, óháð öllum markaðslögmálum tilfinningakulda og tilgerðar.

Nú er ég alls ekki að meina að TTT-starf kirkjunnar sé neitt sérstaklega "töff", það er það örugglega ekki. Ég er í raun viss um að þar er áherslan lögð á hlýju og einlægni, en engu að síður hefur "töff"-væntingunni tekist að smygla sér þarna inn eins og sykruðum gosdrykk í barnaafmæli.

Ég er ekki kúl eða töff maður, síður en svo, ég er eiginlega alveg rosalega eðlilegur maður. Ég kaupi þau föt sem mér finnst ódýrust og hagnýtust hverju sinni. Ég á hlýja sokka og úlpu og geng í gömlum og úldnum strigaskóm því ég set flest annað ofar í forgangsröðina en að eiga flotta skó. Ég kann ekki að svara fálætislega þegar einhver segir eitthvað við mig og ég er yfirhöfuð nokkuð áhugasamur um flest sem fólk hefur að segja.

Samfélagið sem við búum í er fullt af áreitum. Hvort sem um er að ræða börn, unglinga, ungt fólk eða eldra fólk er fólki stanslaust sagt að það þurfi að tileinka sér þessa firringu hlýju og skeytingar til að virka í samfélaginu. Ungu fólki er snemma kennt að það sé ekki "kúl" að vera eldri en þrítugur, fölur, þenkjandi, trúaður, hlýlegur, einlægur, sjálfstæður, náttúruverndarsinni, upplýstur eða forvitinn. Og ef það er ekki "kúl", þá eru þeir sem stunda það algjörlega undirmáls.

En hvað er "kúl"? Ef marka má tónlistarmyndbönd og þau viðhorf sem ég upplifi í samfélaginu gæti það verið eftirfarandi: Auðhyggja, uppsöfnun stöðutákna, tilfinningakuldi, jakkaföt, flottir bílar, fýldur fyrirlitningarsvipur, fordómar og skeytingarleysi um tilfinningar annarra, yfirborðsmennska og tilgerð, að falla í fjöldann, ganga í tískufötum, elta tískubylgjur og helst að fylgjast svo vel með þróun þeirra að svo virðist sem viðkomandi fljóti fremst á bylgjunni, hverrar eini tilgangur er að útiloka hluta samfélagsins frá gjaldgengi.

Af hverju er ungu fólki boðið gegndarlaust upp á þessar fyrirmyndir? Af hverju er þessari lífssýn haldið að börnum? Hvers vegna er fyrirlitningu og tilfinningakulda gert hátt undir höfði?

Nú gætu einhverjir haldið að ég væri "gamall íhaldsklerkur úr kalda stríðinu", en ég er tuttugu og átta ára spjátrungur. Ég hef hins vegar ekkert gaman af því þegar fólk horfir á aðra og dæmir þá vegna þess að þeir falla ekki inn í fyrirfram ákveðið mót félagslegrar hlýðni. Sem ungur og hress maður get ég ekki sætt mig við slíka andlega og tilfinningalega hægðatregðu, því hvað liggur í raun að baki "kúlinu"? Jú, þeir sem stunda þennan leik láta gjarnan sem þeim sé sama um hvað öðrum finnst og þeir séu ónæmir fyrir heiminum, en ekkert gæti verið fjær hinu sanna. Töffaraskapur og tilfinningakuldi er ekkert annað en holdgervingur þeim mun meiri minnimáttarkenndar og óöryggis. Fólk sem lúrir í flottræfilshættinum og tilgerðinni er yfirleit svo hryllilega óöruggt um sjálft sig að það þorir ekki fyrir sitt litla líf að gefa í skyn að það sé mannlegt og hugsi sjálfstætt.

En hver er þá andstæðan? Felst hún ekki einmitt í því að játa á sig og sætta sig við eigin bresti og veikleika, eigin mannleika? Að viðurkenna fyrir sjálfum sér og öðrum að maður er eftir allt saman bara brothætt og viðkvæm lífvera sem þarf innilega á samfélagi við aðra að halda og þráir fátt meir en viðurkenningu, virðingu og vináttu annarra manna? Það er enginn minni maður fyrir að játa sínar andlegu og félagslegu þarfir, sem langoftast snúast einmitt um samfélag við aðra menn.

Ég legg til að við fögnum hinu hallærislega, tökum skrýtnum áhugamálum, einlægni, náttúruást og sérvisku opnum örmum og sjáum hvernig samfélag við náum að skapa ef við opnum augun fyrir fjölbreytileikanum, en festum okkur ekki í þurrpumpulegum töffaraskap. Leyfum okkur að vera blíð, opin, ljúf, hlý, andlega og félagslega þenkjandi. Gefum okkur frí frá endalausri hjarðmennsku efnishyggju og neyslu og eigum góða stund með vinum án áfengis og grímu töffaraskapar. Það er vel þess virði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband