29.3.2006 | 15:42
Fylgjum draumum - Viðhorf
Ef við lærum það sem við viljum og þráum höfum við brennandi áhuga á efninu og munum skara fram úr í því. Það þýðir að við munum fá vinnu í því. Ekki satt?
Ég vissi ekki alveg hvað ég átti að halda en síðan rann það upp fyrir mér. Fólkið sem á peningana í þessu blessaða samfélagi lítur greinilega svo á að í fræðslu- og umönnunarstörf veljist fólk sem "hefur ekki fundið almennilega vinnu," eða "skortir metnað".
Þetta fannst mér alveg lýsandi fyrir það viðhorf sem ég mætti þegar ég kom síðar út úr skápnum með þá staðreynd að ég hygðist læra heimspeki í Háskólanum. "Bara heimspeki?" spurði fólk, eða: "Og hvað ætlarðu svo að vinna? Vera heimspekingur? Ho-Ho-Ho..." Sumir spurðu mig hvort ég ætlaði ekki frekar í einhvers konar tölvufræði eða viðskiptafræði, þar væri peningurinn.
Ég furðaði mig alltaf á þessu. Ég mætti allt of oft þeim hugsunarhætti að ef maður væri að læra heimspeki, gæti ekki verið að maður hefði námsgáfur. Maður hlyti að vera einhvers konar dreymandi hippi sem gæti ekki hugsað sér að vinna ærlega vinnu og sæti mókandi í eiturlyfjavímu og drykkju á einhverjum kaffihúsum daginn út og inn ræðandi einhverja spútnikheimspekinga og talandi gáfumannatal. Jæja, einn af þremur er sosum ekki slæmt. Ég er óttalega dreyminn hippi stundum og þykir voðalega vænt um náttúruna, en hef hins vegar aldrei náð tökum á gáfumannatali og því síður neyslu áfengis, tóbaks eða annars eiturs. Það má í raun segja að ég eigi við drykkjuvandamál að stríða, vegna þess að ég kem yfirleitt ekki meir en þremur bjórum ofan í magann á mér.
En ég fór ekki í heimspeki af því að ég er vitlaus. Raungreinar eru í miklu uppáhaldi hjá mér og ég er mjög áhugasamur um hin ýmsu vísindi og tækni. Ég vildi bara ydda á mér hugann með því að nema gagnrýna hugsun og aðferðafræði heimspekinnar. Þessi fræði hafa gagnast mér mjög víða, bæði persónulega og í atvinnulífinu og ég sé svo sannarlega ekki eftir því að skrifa mína BA-ritgerð í heimspeki.
"Hvað ætlarðu að vinna?" spurði fólk og ég þurfti sífellt að klifa á sama svarinu, að heimspekinga væri að finna mjög víða í atvinnulífinu, þeir væru bara ekki margir í hverju fyrirtæki, svo það væri ekki alltaf auglýst eftir þeim sérstaklega. Hins vegar kæmi það fólki á óvart hvað heimspekingar dreifast víða og vinna fjölbreytt störf. Hér sit ég, blaðamaðurinn og skrifa, á meðan nokkrir af helstu yfirmönnum Sony fljúga milli landa, menntaskólakennarar troða þekkingu inn í höfuðin á börnum og hönnuðir láta sér detta í hug sniðugar lausnir á ýmiss konar vandamálum. Allir eigum við blessaðan Sókrates sameiginlegan. Við vinnum með hausunum. Vá!
Það er stundum eins og fólk geti ekki ímyndað sér að maður geti unnið við eitthvað annað en stendur á prófskírteininu, en það er algerlega rangt. Kennarar geta þróað hugbúnað, verkfræðingar geta annast börn og læknar geta farið á skakveiðar. Grundvallaratriði í þessu máli er að við eigum ekki að læra eitthvað með það fyrir augum að peningarnir séu þar. Ef við gerum það, þá erum við að skrifa upp á ævilanga óhamingju og einnig að við verðum í raun aldrei eins góðir starfsmenn og við gætum orðið. Ef hjartað er ekki með þá erum við týnd. Þess vegna eigum við að læra það sem okkur langar, nákvæmlega það sem hjartað segir okkur að læra, ekki hlusta á "skynsemina" því "skynsemin" er alltaf að reyna að eyðileggja drauma okkar. Í rauninni er það sem við viljum stundum kalla "skynsemina" bara efasemdir okkar og óöryggi sem kallar á "öruggar og reyndar lausnir."
Ef við lærum það sem við viljum og þráum höfum við brennandi áhuga á efninu og munum skara fram úr í því. Það þýðir að við munum fá vinnu í því. Ekki satt?
Á nákvæmlega sama hátt getum við litið í austurátt. Uppi á Kárahnjúkum er nú í undirbúningi að flytja inn 150 þæga starfsmenn sem Impregilo getur farið með eins og því sýnist. Til hvers? Til að byggja mannvirki sem hefur þann eina tilgang að kæfa drauma fólks og fara eftir "skynseminni" sem er ekkert annað en réttlæting efasemda um eigin ágæti og getu til að ná árangri.
Álverið á Reyðarfirði er ekkert annað en svar Valgerðar Sverrisdóttur, nýslegins stórriddara, og forvera hennar, Finns Ingólfssonar, við spurningunni: "Hvaða drauma á íslenska þjóðin?" Og svarið er: "Hættu að láta þig dreyma og farðu öruggu leiðina eins og pabbi þinn."
Meginflokkur: Viðhorf | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:53 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.