29.3.2006 | 15:43
Fjölskylda - Viðhorf
Þegar nýr fjölskyldumeðlimur bætist við í fjölskyldu okkar dettur okkur heldur ekki í hug að hundsa hann og hafa ekki með í fjölskylduathöfnum.
Frá því ég var lítill drengur hefur mig alltaf dreymt um heim þar sem allir búa saman í sátt og samlyndi, en eftir því sem ég eldist geri ég mér sífellt betur grein fyrir því hvað þessi draumur er bæði fjarlægur og óraunsær. Ótti, átök og óöryggi virðast liggja djúpt í mannlegu eðli og ég er ekki frá því að í þessum dimmu hornum mannssálarinnar leynist hlutar af því sem gerir manninn sérstakan, rætur ýmissa framfara og uppgötvana mannsins. Engu að síður óska ég einskis frekar en að fólk geti lifað saman í friði.
Á dögunum kom út könnun sem gerð var fyrir Rauða kross Íslands þar sem í ljós kom að viðhorf unglinga í efstu bekkjum grunnskóla til nýbúa eru að færast til hins verra. Mig hryllir við þeirri tilhugsun að fordómar ungs fólks gegn fólki af erlendum uppruna séu að aukast hér á landi.
En hverjar eru orsakir þessara auknu fordóma og óvildar unglinga gagnvart fólki sem kemur hingað frá löndum utan Vestur-Evrópu? Hvers vegna er ungt fólk, sem ætti að vera opið fyrir nýju fólki, nýjum hugmyndum, farið að óttast svo hið óþekkta?
Ég viðurkenni það fyrstur manna að mér er meinilla við tónlistarmyndbönd þau sem tröllríða öllu þessa dagana. Þar hoppa rapparar um með gullkeðjur, seðlabúnt og skotvopn ásamt því sem fjórða eignin, næstum allsnakin gjafvaxta kona, helst í fleirtölu, dillar sér og nuddar sér utan í "hetjuna" eða bíl hennar. Margir gætu tengt þetta við kynþáttafordóma, en mér er einfaldlega meinilla við þá efnishyggjudýrkun og kvenfyrirlitningu sem birtist í þessum myndböndum. Þá ýta þau enn frekar undir þá hugmynd hjá ungu fólki að það sé flott að vera vondur, að vera harður og svalur, eiga illa fengna peninga og níðast á konum. Ég held að þrátt fyrir að í þessum myndböndum sé fyrst og fremst að finna aðila af framandi húðlit séu þau engu að síður hluti af því vandamáli sem við stöndum frammi fyrir. Þau ala á óþoli og ofbeldi gagnvart þeim sem ekki eru "kúl".
En sleppum nú gerviglæpamönnunum aðeins. Meginrót vandamálsins er ekki að finna á Popptíví, Skjáeinum eða á Netinu. Meginrót vandans liggur hjá okkur, hjá foreldrum, fjölskyldum, kennurum, stjórnmálamönnum, blaðamönnum og öllum þeim sem móta hugarheim ungs fólks.
Hluta vandamálsins má án efa rekja til foreldra sem smita börn sín af fordómum sínum. Foreldra sem nota niðrandi orð um nýbúa á heimilunum. Það er lítið við því að gera annað en að vona að foreldrarnir sjái að sér eða vinna í þessu með börnunum í skólunum.
Stóra vandamálið felst þó í eftirfarandi: Íslendingar hafa til langs tíma þjáðst af sama raggeitarskap, í samskiptum við nýbúa, og aðrar vestrænar þjóðir. Við höfum tekið á móti þeim og komið þeim fyrir og síðan ekki söguna meir. Við höfum ekki dirfst að skipta okkur af þeim og vinna með þeim að því að aðlagast okkar samfélagi. Nýbúar einangrast, þeir læra ekki tungumálið. Unglingarnir eignast ekki íslenska vini og taka ekki þátt í félagslífi eða íþróttum. Af hverju? Af því að lítið sem ekkert hefur verið gert til að toga þá út úr einangruninni. Þess vegna hanga unglingarnir saman í klíkum óöryggis, "asískum gengjum". Það má ekki taka þessi mál vettlingatökum.
Vissulega hafa Rauði krossinn, Alþjóðahúsið og félagsmiðstöðin 100og1 auk fleiri aðila unnið aðdáunarvert starf en betur þarf ef duga skal. Það er sama hversu upplýstur maður er, óttinn og vanlíðanin sem maður upplifir þegar maður sér klíku af utangarðsunglingum framundan hefur sig yfir alla upplýsingu. Ekkert magn fræðslu í grunnskólum kemur í staðinn fyrir að leiða saman ólíka hópa og láta þá vinna saman að verkefnum, félagsstarfi og íþróttum. Skellum krökkunum saman í fótbolta hæfilega blandað í nokkrar vikur og sjáum hvað gerist.
Fólk af erlendum uppruna kemur hingað í tvennum tilgangi, annars vegar sem gestir og hins vegar sem nýir fjölskyldumeðlimir í íslensku samfélagi. Þrátt fyrir eðlilegar reglur gestrisninnar líður góður gestgjafi gestum sínum ekki hvers konar hegðun sem er. Þegar nýr fjölskyldumeðlimur bætist við í fjölskyldu okkar dettur okkur heldur ekki í hug að hundsa hann og hafa ekki með í fjölskylduathöfnum.
Það má segja að nýbúar séu nýir meðlimir í fjölskyldunni Íslandi. Þeir verða að virða húsreglur og siði fjölskyldunnar og laga sig að þeim og við verðum skilyrðislaust að koma til móts við okkar nýju bræður og systur, kenna þeim almennilega íslensku, gera þeim grein fyrir okkar siðum og takmörkum og taka þau með okkur í leiki og starf.
Það að taka vel á móti útlendingum sem koma hingað til að búa er ekki að láta allt eftir þeim og láta þá afskiptalausa. Það er heldur ekki að ætlast til þess að þeir hætti öllum sínum siðum og menningu. Markmið okkar hlýtur að vera að leggja rækt við sérstöðu okkar nýju landsmanna og um leið að tryggja að sú sérstaða brjóti ekki ramma laga og siða, þess sem hér er talið gott og rétt. Sem samfélag hljótum við að gera kröfur til okkar sjálfra og einnig til gesta okkar og nýrra Íslendinga. Við verðum að hafa þroska til að aðgreina neikvæða þætti menningar frá jákvæðum þáttum. Við verðum líka að hafa þroska til að brjóta ísinn gagnvart fólki og draga það inn í samfélagið, draga það með í leiki og starf. Annars getum við kvatt allar tálsýnir sem við höfum um opið samfélag umburðarlyndis og kærleika. Íslendingar ættu að vera manna færastir um að "taka á þessu."
Meginflokkur: Viðhorf | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:52 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.