29.3.2006 | 15:43
Pirringur - Viðhorf
Við verðum að gæta okkar ofboðslega vel á dagsformi okkar þegar við metum hlutina. Oft geta saklausustu orð snúist upp í eitur í hjarta okkar, einungis sökum þreytu og pirrings.
Það er merkilegt hvað dómgreind okkar og tilfinningalífið eins og það leggur sig eru háð duttlungum dagsformsins. Þegar maður er vel sofinn, úthvíldur, afslappaður og búinn að eiga góðan dag túlkar maður allt sem gerist á jákvæðan hátt, allt gengur upp, allt mun fara á besta veg. En þegar maður sefur illa, er stressaður eða pirraður yfir einhverju getur maður haft allt á hornum sér og gersamlega misst stjórn á tilfinningum sínum með hræðilegum afleiðinum.
Það er ferleg tilfinning þegar maður, annars dagfarsprúður og ljúfur, mistúlkar í pirringi og ýldu orð og athafnir fólks sem þykir vænt um hann og breytist í bölvandi naut. Niðurrifsáhrif slíkrar mistúlkunar og eyðileggingarmáttur slíkra neikvæðra tilfinninga geta verið hrikaleg. Svo ekki sé talað um þann skaða sem verður á sjálfstrausti manns og sjálfsáliti eftir uppákomuna.
Ég hef sjálfur byggt upp orðspor sem geðprúður maður með gott skap. Undanfarið hafa þó streita og pirringur eitthvað verið að hrjá mig. Lítill svefn, álag og tilfinningarót hafa valdið því að hinn annars dagfarsprúði Svavar breytist í einhvers konar tröllkarl sem baular og emjar af pirringi og gremju af minnsta tilefni. Þetta veldur nokkurs konar vítahring skapvonsku sem erfitt er að losna úr nema með gríðarlegu átaki, sem jafnvel getur falið í sér grát og gnístran tanna. Slík skapvonska getur fælt frá okkur fólk sem þykir vænt um okkur, fólk sem við þurfum á að halda. Þess vegna er ótrúlega mikilvægt að maður átti sig á hlutunum. Ég held að þetta sé kallað tilfinningagreind.
Pirringur og þreyta leiða til ofurviðkvæmni. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að vera sér vel meðvitandi um eigin líðan og andlegt og líkamlegt ástand. Spyrjum sjálf okkur: Hversu líklegt er að þessi manneskja, sem þykir vænt um mig og mér þykir vænt um, sé bara allt í einu að taka upp á því að vera með leiðindi við mig? Er ekki líklegra að ég sé þreyttur, pirraður, svangur eða með einhvern einmanaleika sem er að hrjá mig? Ef við öndum rólega og gefum okkur bara tíu sekúndur til að hugsa um hlutina út frá þessu sjónarhorni hljótum við að sjá að túlkun okkar á orðum og athöfnum viðkomandi er beintengd andlegu og líkamlegu ástandi okkar, dagsformi okkar. Viðkomandi á það skilið að við leyfum honum að njóta vafans í öllum samskiptum.
Ef við gefum okkur tíma til að staldra aðeins við og hugsa uppbyggilega í stað þess að bregðast strax við eins og naut í flagi hljótum við að sjá að fólk sem við eigum dagleg og góð samskipti við færi tæpast að taka það upp hjá sjálfu sér að skjóta skyndilega á okkur einhvers konar tilfinningalegum tundurskeytum. Öndum rólega og áttum okkur á því að líkamlegt og andlegt ástand okkar er oftar en ekki forsenda þess hvernig við túlkum heiminn. Heimurinn er ekki öðruvísi í dag en í gær, en við getum verið mun verr stemmd til að túlka hann.
En fyrst við erum nú á annað borð að tala um pirring, þá hef ég undanfarnar vikur fylgst með tveimur málum sem hafa valdið mér nokkrum pirringi. Annars vegar umræðan um það að trúfélögum sé veitt frelsi til að blessa sambönd samkynhneigðra og hins vegar umræðan um skopmyndirnar af Múhameð spámanni.
Umræðan snýst mikið til um skörun mannréttinda, trúfrelsis og tjáningarfrelsis. Annars vegar um mörk tjáningarfrelsis og virðingar fyrir trú og hins vegar mörk mannréttinda og virðingar fyrir trú.
Ég get ekki annað en brosað að því þegar ég heyri kristið fólk tala fjálglega um viðkvæmni múslima í garð "ósköp sakleysislegra skopmynda", þegar sjálf þjóðkirkjan mótmælir sjálfsögðum mannréttindum fólks til að njóta blessunar í samböndum sínum, jafnvel hjá öðrum trúfélögum.
Múslimar vilja ekki að teiknaðar séu myndir af spámanni þeirra. Gott og vel. Þrátt fyrir að sjálfur skrifi ég undir önnur siðalögmál en múslimar er ég tilbúinn til að hliðra tjáningarfrelsi mínu örlítið fyrir tillitssemi sakir. Mér er enginn skaði að því að teikna ekki skopmyndir af Múhameð spámanni.
Þjóðkirkjan og fleiri kristnir söfnuðir vilja ekki að samkynhneigðir fái trúarlega blessun sambands síns. Hér er hins vegar um að ræða alvarlegri skörun. Því ef við á annað borð viðurkennum að samkynhneigðir séu jafnir gagnkynhneigðum í þessu samfélagi og eigi inni sömu réttindi hljóta sömu lög að eiga að gilda um sambönd þeirra. Væri ég samkynhneigður þætti mér það mikil skerðing á mannréttindum að eiga ekki tilkall til blessunar sambands míns og maka míns. Mun alvarlegri skerðing en að mega ekki ögra ákveðnum trúarhópum með því að teikna heilagasta spámann þeirra með sprengjutúrban.
Lögin sem um er rætt eru ekki að fara að þvinga þjóðkirkjuna til neins. En þau munu leyfa þeim trúfélögum sem það vilja að blessa sambönd samkynhneigðra. Þjóðkirkjan vill s.s. meina ásatrúarmönnum og búddistum að blessa sambönd. Það er rétt eins og ef múslimar vildu banna öllum öðrum trúarbrögðum að teikna myndir af sínum spámönnum og guðum. Búdda, Kristur, Ganesh og Óðinn mættu ekki teiknast. Er það ekki dálítið meiri mannréttindaskerðing? Hvaða rétt eigum við á að tala um ofstæki?
Við hneykslumst á því að mega ekki taka upp á "smávegis ögrun" á meðan við, sjálfumglaðir Vesturlandabúar, höldum aftur af sjálfsögðum réttindum fólks til að njóta trúarlegrar blessunar. Fáránlegar röksemdir um að íslensk tunga hrynji ef skilgreining hjónabands breytist og hreint út sagt ótrúlegar fullyrðingar um að hjónabönd fari á ruslahaugana ef samkynhneigðir fái blessun. Meira að segja fullyrða sumir að eins gætum við leyft manni og sauðkind eða manni og barni að fá blessun sambands síns. Er orðum eyðandi á svona rök? Við erum að tala um tvær fullorðnar manneskjur sem eru ástfangnar og njóta í öllu samfélagslegrar viðurkenningar á sambandi sínu.
Kannski ættu biskup og skoðanabræður hans að athuga hvort þeir séu eitthvað pirraðir eða illa sofnir þessa dagana?
Meginflokkur: Viðhorf | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:52 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.