Velkominn vinur minn - Viðhorf

Hinn nýi sambýlismaður minn hefur fært mér nýja þekkingu og sýn á lífið. Hann er hress og lifandi persónuleiki og er mér hvatning til að gera betur í mínu eigin lífi.

Þú ert nú eitthvað ruglaður," sagði góð vinkona mín við mig á dögunum þegar ég skýrði henni frá þeirri ákvörðun minni að bjóða manni sem ég þekkti tiltölulega lítið að gerast sambýlismaður minn í frekar þröngri risíbúð minni. Og ekki bætti úr skák að maðurinn er af erlendu bergi brotinn.

Ég gaf mig ekki, stóð fastur á minni ákvörðun, enda hef ég afar gaman af samneyti við annað fólk og er afar félagslyndur að eðlisfari. Mér finnst fjölbýli gott fyrirbæri og á auðvelt með að svala þörf minni fyrir einveru t.d. með göngutúrum eða jafnvel þegar aðrir eru hreinlega ekki heima.

Og dagurinn kom, sem nýi sambýlismaðurinn lenti hér á landi. Nokkrum dögum síðar komu húsgögnin hans og nú minnir íbúðin mín á blöndu af kafbát úr seinni heimsstyrjöld og heimili gamallar frænku. Allt frekar þröngt, en um leið ofboðslega "kósý".

Minn nýi sambýlismaður kom með endalaust mikið af skemmtilegu dóti með sér, styttum, bókum, tónlist og málverkum, svo ekki sé minnst á ótrúlega margar áhugaverðar sögur. Í morgun sátum við og hann kenndi mér klókindi ýmiss konar í kotru (Backgammon). Þá hefur hann á aðeins nokkrum dögum kynnt fyrir mér ýmiss konar hugmyndir um byggingarlist, umhverfisvænan lifnað, Feng Shui og fleira auk þess sem ég hef nú eignast nýjan borðtennis- og badmintonfélaga.

Ég er einkar hrifinn af þeirri jákvæðu orku sem minn nýi sambýlismaður hefur komið með inn í líf mitt. Hann er skipulagður, góður og hugmyndaríkur kokkur, kátur og glaðvær og býr yfir húmor sem er í senn sígildur og ferskur. Auðvitað á hann sér sína galla, en enginn maður er gallalaus og við verðum að geta lifað með þeim. Ég trúi því hins vegar að koma nýja leigjandans míns til Íslands færi mér mun meira en ég fórna.

Nú vona ég svo sannarlega að þegar hingað er komið séu flestir lesendur mínir búnir að átta sig á þeim víðari skilningi sem þessari dæmisögu er ætlað að skýra. Ef við nálgumst ný menningaráhrif með jákvæðu, en gagnrýnu, hugarfari eru allar líkur á að við græðum mun meira en við töpum. Það er t.d. ekki eins og nýi leigjandinn minn sé að fara að snúa mér til hindúatrúar eða ég byrji að reykja og drekka brennivín í auknum mæli vegna komu hans. Það er ekki eins og koma hans geri mig ofbeldisfyllri eða ræni mig kærustunni. (Hann er að vísu bráðmyndarlegur, en ég er þess fullviss að ef ég kem vel fram við frúna fer hún ekki að hlaupa rakleitt í fangið á honum.) Hann rænir mig ekki vinnunni, en er aftur á móti til alls líklegur að skapa atvinnu með sínum góðu hugmyndum. Ég get ekki séð að koma hans geri okkur ógagn.

Það myndi ekki skipta mig máli hvort leigjandinn minn væri gulur eða svartur eða hvítur, múslimi, hindúi eða búddisti, Breti, Dani eða Indverji. Hann er ný manneskja í mínu lífi, manneskja sem færir mér nýja sýn, nýja reynslu og ný tækifæri til að blómstra sem manneskja.

Ég lít ekki á leigjandann minn sem gest. Ég lít á hann sem nýjan heimilismeðlim. Hann reynir sitt besta til að aðlagast mínum heimilisháttum, en um leið reyni ég að hliðra aðeins til svo honum líði vel og læri jafnvel af honum um leið. Við hófum sambýlið á því að skýra mörk okkar. Ég vil ekki að reykt sé inni í íbúðinni og hann þarf að baða sig a.m.k. einu sinni á dag. Þetta erum við báðir kátir með.

Um helgina voru stofnuð ný grasrótarsamtök hér á Íslandi, Ísland Panorama, en þeim er ætlað að berjast gegn fordómum. Við leigjandinn mættum á stofnfundinn, en honum til mikillar undrunar voru öll erindi á íslensku og engin gögn á staðnum á ensku. Leigjandinn var undrandi þegar við gengum út rúmum klukkutíma síðar, en hann var samt ánægður með að samtökin væru stofnuð.

Það er nefnilega nauðsynlegt að gera skurk í málefnum þeirra íbúa þessa lands sem eiga rætur sínar að rekja erlendis. Það er ekki þörf á neinu átaki, heldur stöðugri hugarfarsbreytingu. Kannanir hafa sýnt fram á það að fordómar gagnvart útlendingum og "hinum litríkari" íslendingum eru mestir meðal ungs fólks.

Á stofnfundi Ísland Panorama talaði ungur drengur sem er nú að ljúka tíunda bekk Austurbæjarskóla. Hann rakti þar reynslu sína sem Íslendings sem nýtur ekki þeirra forréttinda að vera með rétta húðlitinn. Drengurinn var búinn að búa á Íslandi í tíu ár. Enginn hreimur eða málvillur einkenndu talanda hans, en hann var skýrari og skipulagðari í máli en flestir tíundu bekkingar sem ég hef heyrt tala hingað til.

Ég var vægast sagt hrifinn af máli drengsins. Hann er ungur maður með sterkar og góðar skoðanir. Af persónulegri reynslu veit ég líka að hann er góður og skapandi tónlistarmaður og liðtækur söngvari. Hann hefur sannfæringu og fylgir henni, m.a. með því að mæta með jafnöldrum sínum og stunda það sem stjórnvöld vilja kalla "atvinnumótmæli". Sagði hann okkur frá því hvernig lögreglan höndlar málin þegar hann mótmælir með vinum sínum. Ráðast þá gjarnan tveir lögreglumenn á þann "þeldökka", á meðan allir vinir hans fá að vera í friði. Svo talar fólk jafnan nokkuð yfirlætislega við hann, spyr hann "hvaðan hann sé" og viðurkennir trauðla að hann sé Íslendingur.

Það er ekki nauðsynlegt að breiða undir neinn silkiteppi, heldur ber okkur að nálgast þá sem hingað koma af virðingu og opnum hug. Nýir gestir færa okkur ný viðhorf, nýja sýn og okkur er hollara að mæta þeim með útréttar hendur en kreppta hnefa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Frábær pistill Svavar!
Heyr heyr!

Fanney Dóra (IP-tala skráð) 30.3.2006 kl. 12:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband