Færsluflokkur: Viðhorf

Sjálfstæði - Viðhorf

Eitt af því besta við unglinga er að það er ekki ennþá búið að troða þeirri lygi í hausinn á þeim að það sé ekki hægt að skemmta sér án áfengis. En því miður munu langfæstir þeirra standast þá lygi.

Á föstudagskvöldið spilaði ég með hljómsveitinni minni fyrir árshátíð hjá unglingum í grunnskóla. Þetta voru ótrúlega hressir krakkar, opnir og glaðir og kátir. Þau dönsuðu og sungu eins og þau ættu lífið að leysa og þau áttu svo sannarlega skilið alla þá gleði sem þau sýndu.

Það var hrein unun fyrir okkur félagana að skemmta þessu unga fólki, ekki síst vegna þess að þarna var um að ræða hóp fólks þar sem enginn var drukkinn. Allir voru allsgáðir, kátir og eina víman var gleðivíman sem fylgir því að dansa og skemmta sér í góðra vina hópi. Vissulega voru nokkrir krakkar í salnum ennþá feimnir og ekki tilbúnir að sleppa sér, en það er eðlilegur fylgifiskur unglingsáranna.

Þegar ég var unglingur var ég ekki byrjaður að drekka. Satt að segja byrjaði ég ekki að drekka fyrr en ég var nítján ára (já, ég er líka lögbrjótur). Ég er feginn að það æxlaðist þannig. Eftir á að hyggja var það afskaplega skynsamleg ákvörðun, þótt það hafi verið erfitt á stundum, enda mikill hópþrýstingur í gangi. Og hópþrýstingur er ekki endilega hópur af krökkum ýtandi að manni vínflösku og segjandi: Kommon, vertu kúl. Hópþrýstingur er líka sú tilfinning að maður sé á einhvern hátt asnalegur, utangátta, skrýtinn af því maður er ekki að taka þátt í einhverju sem öllum öðrum virðist sjálfsagt.

Ég man sérstaklega vel eftir einu kvöldi þegar ég var fjórtán eða fimmtán ára. Ég var bara í góðum gír í Kraftgallanum mínum úti í bæ hnoðandi snjóbolta, í góðum göngutúr, en jafnaldrar mínir voru allt í einu farnir að ráfa um með kókflöskur sem voru ekki lengur bara kókflöskur. Þau voru farin að slást, rífast hátt og veltast um á götunni. Þau voru líka farin að halda partí og mæta í partí þar sem stemmningin var allt önnur en sú sem ég áður þekkti. Allt í einu var maður svona hálfpartinn einn í heiminum innan um fólk sem bjó í allt öðrum heimi.

Eitt af því besta við unglinga er að það er ekki ennþá búið að troða þeirri lygi í hausinn á þeim að það sé ekki hægt að skemmta sér án áfengis. Síðan ég byrjaði að drekka fyrir meira en tíu árum hef ég ekkert verið að flýta mér við það heldur. Mér nægir einn góður bjór í góðra vina hópi, jafnvel tveir. Svo er þetta bara spurning um að skemmta sér vel og gleðjast með vinum sínum. En það er bara svo ofboðslega mikið af fólki sem hreinlega getur ekki lengur skemmt sér nema öskufullt. Og það er sorglegt að sjá. Það að skemmta sér án áfengis virðist í samfélagi hinna fullorðnu frekar vera undantekning en hefð.

Það er stórskemmtilegt að vinna með unglingum sem enn eru lausir við þessa heimskulegu blekkingu. Unglingar hafa áhugaverða og skemmtilega heimssýn og þeir kunna svo sannarlega að skemmta sér vel saman, strax og feimninni sleppir. En feimnin er líka eðlilegur fylgifiskur aldursins, lamandi og nístandi, svo freistingin hlýtur að vera mikil að finna eitthvað töfralyf sem slakar á henni.

Ég skil ósköp vel hvers vegna það er svona auðvelt að grípa til hömlulosandi drykkja til að eiga auðveldara með samskipti við jafningjana. En því miður endar það allt of oft svo að það verður eina leiðin. Unglingsárin eiga að vera árin sem við lærum samskiptin, en þökk sé áfenginu sleppa ósköp margir við að temja sér þá vandlærðu list.

Ekki veit ég ástæðu þess að neysla áfengis átti ekki við mig sem ungling. Ef eitthvað, var ég feimnari en gengur og gerist, dálítið utangátta. Þá var ég svo sannarlega enginn snillingur í samskiptum við hitt kynið. Tilhugalíf hins fjórtán ára Svavars fólst í snjóglímu og helst að kaffæra stelpur í snjó. Fimmtán ára réð feimnin ein.

Það er fátt sem mig langar meira en að hjálpa unglingum að skilja að það er enginn að segja þeim að byrja aldrei að drekka. Heldur bara það að bíða á meðan þau eru að taka út þennan mikilvægasta þroska ævinnar. Hversu marga þroskahefta menn hefur maður ekki hitt niðri í bæ, sem betur hefðu beðið aðeins með að byrja að drekka? Eða konur? Það er nefnilega mikil hætta á því að félagslegur þroski fólks heftist alvarlega þegar það læsist inni í þeim lífsstíl að djamm og drykkja séu einu valkostirnir þegar kynnast skal nýju fólki. Að ekkert annað sé hægt að gera um helgar en að drekka frá sér allt vit og eyða næstu dögum í þynnku.

Nú er ég ekki að segja að minn félagsþroski sé neitt sérstakur, enda hef ég alltaf verið óttalega mikill furðufugl. En ég er nokkuð viss um að ég væri síst betur staddur hefði ég byrjað að drekka fjórtán eða fimmtán ára eins og svo margir jafnaldrar mínir.

Ég vildi að ég gæti með einhverjum hætti komið þeim fróðleik til unglinganna að það liggur ekkert á. Endilega að nota þessi nokkru áhyggjulausu ár til þess að læra að láta sér líða vel með sjálfan sig. Vinkona mín sagði um daginn við mig að til þess að blómstra í sambandi verði maður að læra að vera einn. Það gæti eins vel gilt um neyslu áfengis. Til þess að vera heilbrigður með víni verður maður að geta verið heilbrigður án þess.

Allt of margir verða algjörir leiðindadurgar og svín þegar þeir drekka. Og nú meina ég þetta ekki bara í karlkyni. En unglingar eru (sem betur fer) gæddir óseðjanlegri forvitni og þörf til að reka sig á hlutina. Þeir láta sko engan fullorðinn segja sér hvað er rétt og hvað er rangt. Og það er einmitt það sem gerir unglinga svo frábæra. En maður vildi bara óska þess að þeir tækju mark á okkur á þessari einu vígstöð.

Ungt fólk þarf vissulega að læra af eigin mistökum. Það á erfitt með að læra af mistökum annarra. Því miður er það að byrja snemma að drekka mistök sem er mjög erfitt að læra af, því þau leiða fólk í hugarfar. Og hugarfar er eins og hjólför, það er alltaf erfitt að komast upp úr þeim ef þau eru djúp og fjölfarin. Hið sanna frelsi felst í því að forðast þessi hjólför. Og því segi ég við unglingana: Búið til ykkar eigin vegi, ekki gera eins og fullorðna fólkið. Þið sjáið hvað það er glatað í hjólförunum sínum. Þorið að vera sjálfstæð.

Svavar Knútur Kristinsson (svavar@mbl.is)


Velkominn vinur minn - Viðhorf

Hinn nýi sambýlismaður minn hefur fært mér nýja þekkingu og sýn á lífið. Hann er hress og lifandi persónuleiki og er mér hvatning til að gera betur í mínu eigin lífi.

Þú ert nú eitthvað ruglaður," sagði góð vinkona mín við mig á dögunum þegar ég skýrði henni frá þeirri ákvörðun minni að bjóða manni sem ég þekkti tiltölulega lítið að gerast sambýlismaður minn í frekar þröngri risíbúð minni. Og ekki bætti úr skák að maðurinn er af erlendu bergi brotinn.

Ég gaf mig ekki, stóð fastur á minni ákvörðun, enda hef ég afar gaman af samneyti við annað fólk og er afar félagslyndur að eðlisfari. Mér finnst fjölbýli gott fyrirbæri og á auðvelt með að svala þörf minni fyrir einveru t.d. með göngutúrum eða jafnvel þegar aðrir eru hreinlega ekki heima.

Og dagurinn kom, sem nýi sambýlismaðurinn lenti hér á landi. Nokkrum dögum síðar komu húsgögnin hans og nú minnir íbúðin mín á blöndu af kafbát úr seinni heimsstyrjöld og heimili gamallar frænku. Allt frekar þröngt, en um leið ofboðslega "kósý".

Minn nýi sambýlismaður kom með endalaust mikið af skemmtilegu dóti með sér, styttum, bókum, tónlist og málverkum, svo ekki sé minnst á ótrúlega margar áhugaverðar sögur. Í morgun sátum við og hann kenndi mér klókindi ýmiss konar í kotru (Backgammon). Þá hefur hann á aðeins nokkrum dögum kynnt fyrir mér ýmiss konar hugmyndir um byggingarlist, umhverfisvænan lifnað, Feng Shui og fleira auk þess sem ég hef nú eignast nýjan borðtennis- og badmintonfélaga.

Ég er einkar hrifinn af þeirri jákvæðu orku sem minn nýi sambýlismaður hefur komið með inn í líf mitt. Hann er skipulagður, góður og hugmyndaríkur kokkur, kátur og glaðvær og býr yfir húmor sem er í senn sígildur og ferskur. Auðvitað á hann sér sína galla, en enginn maður er gallalaus og við verðum að geta lifað með þeim. Ég trúi því hins vegar að koma nýja leigjandans míns til Íslands færi mér mun meira en ég fórna.

Nú vona ég svo sannarlega að þegar hingað er komið séu flestir lesendur mínir búnir að átta sig á þeim víðari skilningi sem þessari dæmisögu er ætlað að skýra. Ef við nálgumst ný menningaráhrif með jákvæðu, en gagnrýnu, hugarfari eru allar líkur á að við græðum mun meira en við töpum. Það er t.d. ekki eins og nýi leigjandinn minn sé að fara að snúa mér til hindúatrúar eða ég byrji að reykja og drekka brennivín í auknum mæli vegna komu hans. Það er ekki eins og koma hans geri mig ofbeldisfyllri eða ræni mig kærustunni. (Hann er að vísu bráðmyndarlegur, en ég er þess fullviss að ef ég kem vel fram við frúna fer hún ekki að hlaupa rakleitt í fangið á honum.) Hann rænir mig ekki vinnunni, en er aftur á móti til alls líklegur að skapa atvinnu með sínum góðu hugmyndum. Ég get ekki séð að koma hans geri okkur ógagn.

Það myndi ekki skipta mig máli hvort leigjandinn minn væri gulur eða svartur eða hvítur, múslimi, hindúi eða búddisti, Breti, Dani eða Indverji. Hann er ný manneskja í mínu lífi, manneskja sem færir mér nýja sýn, nýja reynslu og ný tækifæri til að blómstra sem manneskja.

Ég lít ekki á leigjandann minn sem gest. Ég lít á hann sem nýjan heimilismeðlim. Hann reynir sitt besta til að aðlagast mínum heimilisháttum, en um leið reyni ég að hliðra aðeins til svo honum líði vel og læri jafnvel af honum um leið. Við hófum sambýlið á því að skýra mörk okkar. Ég vil ekki að reykt sé inni í íbúðinni og hann þarf að baða sig a.m.k. einu sinni á dag. Þetta erum við báðir kátir með.

Um helgina voru stofnuð ný grasrótarsamtök hér á Íslandi, Ísland Panorama, en þeim er ætlað að berjast gegn fordómum. Við leigjandinn mættum á stofnfundinn, en honum til mikillar undrunar voru öll erindi á íslensku og engin gögn á staðnum á ensku. Leigjandinn var undrandi þegar við gengum út rúmum klukkutíma síðar, en hann var samt ánægður með að samtökin væru stofnuð.

Það er nefnilega nauðsynlegt að gera skurk í málefnum þeirra íbúa þessa lands sem eiga rætur sínar að rekja erlendis. Það er ekki þörf á neinu átaki, heldur stöðugri hugarfarsbreytingu. Kannanir hafa sýnt fram á það að fordómar gagnvart útlendingum og "hinum litríkari" íslendingum eru mestir meðal ungs fólks.

Á stofnfundi Ísland Panorama talaði ungur drengur sem er nú að ljúka tíunda bekk Austurbæjarskóla. Hann rakti þar reynslu sína sem Íslendings sem nýtur ekki þeirra forréttinda að vera með rétta húðlitinn. Drengurinn var búinn að búa á Íslandi í tíu ár. Enginn hreimur eða málvillur einkenndu talanda hans, en hann var skýrari og skipulagðari í máli en flestir tíundu bekkingar sem ég hef heyrt tala hingað til.

Ég var vægast sagt hrifinn af máli drengsins. Hann er ungur maður með sterkar og góðar skoðanir. Af persónulegri reynslu veit ég líka að hann er góður og skapandi tónlistarmaður og liðtækur söngvari. Hann hefur sannfæringu og fylgir henni, m.a. með því að mæta með jafnöldrum sínum og stunda það sem stjórnvöld vilja kalla "atvinnumótmæli". Sagði hann okkur frá því hvernig lögreglan höndlar málin þegar hann mótmælir með vinum sínum. Ráðast þá gjarnan tveir lögreglumenn á þann "þeldökka", á meðan allir vinir hans fá að vera í friði. Svo talar fólk jafnan nokkuð yfirlætislega við hann, spyr hann "hvaðan hann sé" og viðurkennir trauðla að hann sé Íslendingur.

Það er ekki nauðsynlegt að breiða undir neinn silkiteppi, heldur ber okkur að nálgast þá sem hingað koma af virðingu og opnum hug. Nýir gestir færa okkur ný viðhorf, nýja sýn og okkur er hollara að mæta þeim með útréttar hendur en kreppta hnefa.


Loksins Frjáls - Viðhorf

Gunnar í Krossinum hefur frelsað mig úr hlekkjum rökstuðnings, hlutlægni og orsakasamhengis. Loksins má ég bulla eins og ég vil án þess að hafa áhyggjur af sannleiksgildinu.

Gunnar "í Krossinum" Þorsteinsson fékk sunnudaginn 26. febrúar sl. birta hér í blaðinu grein sem ég tók svo sannarlega fagnandi, eins og frelsandi vindi sem hrindir burt fjötrum hversdagsleikans. Umfjöllunarefni Gunnars var kunnuglegt og sosum ekki nýtt af nálinni, óþol hans á samkynhneigðum og viðurstyggð sú sem hann hefur á þeim sem ganga aðra vegi en hann kýs. Það hefur hingað til ekki þótt tíðindum sæta að ofstopamenn túlki bókstafi trúarrita til að henta sinni stefnu. Hvers vegna ættu hryðjuverkamenn sem kenna sig við íslam að eiga einkarétt á því?
En eitt var alveg frábært við grein Gunnars sem gefur mér ástæðu til mikillar bjartsýni og gleði. Gunnar skellti fram sjö "staðreyndum" um samkynhneigða og börn þeirra án þess að rökstyðja þær nokkuð frekar með hlutlausum rannsóknum, rökrænum tengslum eða neinu.

Við skulum fara yfir fullyrðingar Gunnars stuttlega. Svo við höfum "staðreyndirnar" okkar á hreinu:

1. Börn samkynhneigðra eiga á hættu að alast upp við óvissu um kynhlutverk sitt. (En áhugavert. Mér þætti nú gaman að sjá þá hlutlausu rannsókn sem sýndi fram á það.)

2. Börn samkynhneigðra eru hneigðari til fjöllyndis. (Enn og aftur væri spennandi að sjá þessa rannsókn, en bara svona fyrir mína forvitni.)

3. Börn samkynhneigðra eru í meiri hættu á að missa foreldri (alnæmi, lyfjaneysla, sjálfsvíg (og skoðanabræður Gunnars í Krossinum að berja úr því líftóruna)). Ævilíkur samkynhneigðra karla eru aðeins um fjörutíu ár. (En hvað með ævilíkur samkynhneigðra karla sem bindast hvor öðrum og ala upp barn saman?)

4. Börn samkynhneigðra eiga frekar á hættu að glíma við þunglyndi og önnur geðræn vandamál. (Væntanlega þegar fólk eins og Gunnar í Krossinum heldur sífellt áfram að predika að foreldrar þeirra eigi einnar leiðar passa til helvítis. Það er alltaf hressandi.)

5. Hærra hlutfall barna sem alin eru upp "með slíkum hætti" verður samkynhneigt. (Ég sem hélt að börn samkynhneigðra væru bara opnari fyrir því að koma út úr skápnum ef þau væru á annað borð samkynhneigð. Ekki það að það gerði neitt til að vera samkynhneigður, en það er greinilega mikið mál fyrir Gunnar.)

6. Samband samkynhneigðra er ekki eins varanlegt og gagnkynhneigðra, sérstaklega hvað homma áhrærir, og meðalsambúðartími þeirra er um þrjú ár. (Og ég sem hélt að þegar fólk ákveður að eignast saman börn væri það vottur um skuldbindingu.)

7. Fjöllyndi er nánast lífsstíll homma og hefur það neikvæð áhrif á uppeldi barna. (Auðvitað er það sjálfsagður hlutur að fólk sem ákveður að eignast barn heldur áfram sukki, svínaríi og stóðlífi úti í bæ, auðvitað, hvað var ég að hugsa?)

Gleymdi ég einhverju? Þetta er stórkostlegt! Loksins má skrifa í blöðin fullyrðingar sem eru gersamlega út í hött og órökstuddar. Loksins má ég kynna fimm helstu hugmyndir mínar um heiminn og setja þær fram sem staðreyndir án þess að hafa nokkrar áhyggjur af argans bulli eins og rökstuðningi.

Án frekari tafa langar mig því að feta í fótspor Gunnars í Krossinum og setja fram nýmótaða heimsmynd mína án nokkurs tillits til rökstuðnings, vísinda, jarðnesks veruleika eða orsakasamhengis. Í grundvallaratriðum felst hún í því að Framsóknarflokkurinn og Krossinn eru hluti af alheimssamsæri sömu aðila og færðu okkur fuglaflensuna, silkiblóm og sembalinn. Og hér höfum við "staðreyndirnar" mínar fimm sem renna enn frekari stoðum undir kenningu mína um heiminn. Þakka þér kærlega, Gunnar í Krossinum, fyrir að frelsa mig undan viðjum rökstuðnings og orsakasamhengis. Áður hefði fólk bara getað vænt mig um fordóma gegn Framsóknarflokknum, en nú get ég, með aðferð Gunnars, auðveldlega "rökstutt" afstöðu mína.

1. Framsóknarflokkurinn er eitt andlita demónsins Gargaroth og allir sem ganga í flokkinn missa sál sína hið snarasta. Framsóknarmenn þekkjast af gatinu aftan á hnakkanum þar sem sálin var dregin út.

2. Krossinn er nornasamfélag sem byggist á fjölvíddafræðum bresku saumakonunnar Hortense Wilkinson, en hún var fræg fyrir semballeik og fjölkynngi.

3. Eitt af inntökuskilyrðunum í Krossinn er fjórða stigs kunnátta í semballeik.

4. Allir sem ganga í Krossinn og Framsóknarflokkinn fá bólusetningu við fuglaflensunni. Leynimottó þeirra er "Þurrkum út andstæðinga framfara."

5. Tilvist mannkyns liggur í fertugustu og fimmtu sveiflutíðni sjöundu víddarinnar. Þetta getur hver maður uppgötvað við það eitt að ganga niður Laugaveginn á fallegum sólskinsdegi.

Eruð þið, lesendur góðir, nú ekki öllu nær um veruleika heimsins? Datt mér ekki í hug, enda er þessi aðferð mun fljótlegri og vænlegri til árangurs en að vera endalaust að flækja sig í rök og sannleika, því satt að segja gæti maður með þeirri aðferð komist að því að maður hefði rangt fyrir sér, að framsóknarmenn væru ekki allir sálarlausir og að í Krossinum leyndist ágætis fólk. En hvers vegna að vera að flækja heiminn með rökum, umburðarlyndi og hlutlægni?

Stuttlega yfir í aðra sálma. Á dögunum sá ég líka í því fróma riti DV tvö svör við spurningu dagsins sem vöktu athygli mína. Spurt var hvort múslimar mættu reisa sér mosku hér á landi og svöruðu tveir áhugaverðir menn svo til: "Nei, þetta fólk á að aðlagast okkar menningu." Ég vona að þessir menn muni það ef þeir einhvern tíma flytjast til Indlands eða bara til Ítalíu. Þá skulu þeir ekkert vera að leita að lúterskri kirkju, heldur bara taka upp hindúatrú eða hoppa yfir í kaþólskuna, það ætti ekki að vera neitt mál. Þeir eru komnir í annað land, best að aðlagast þeirra menningu.

Að lokum vil ég koma að leiðréttingu. Á dögunum hljóp ég á mig og skrifaði hér í viðhorfspistli að kirkjan vildi ekki leggja blessun sína yfir sambönd samkynhneigðra. Réttlát reiði brast út hjá einni sannkristinni konu og hringdi hún bálreið í blaðið. Þetta var auðvitað kolrangt hjá mér. Auðvitað vill kirkjan fúslega veita samböndum samkynhneigðra blessun. Hún vill bara ekki vígja þau. Ég biðst innilega afsökunar.


Undrumst og Hneykslumst - Viðhorf

Við megum ekki láta breyta okkur í sálarlausa uppvakninga. Við verðum að undrast, hneykslast, elska og reiðast, berja í borð, hlæja og gráta.

Um daginn hitti ég nokkra jafnaldra mína að máli, ekki alla mér kunnuga. Ég spurði hvert skyldi farið í sumar. Utanlandsferðir voru í tísku í þessum hópi og vildu flestir komast á sólarstrandir, en færri einhvers konar upplifunarferðalög. Ég spurði hvort ekki stæði til að fara í einhvers konar innanlandsferð, tók sem dæmi að kíkja norður í Ásbyrgi og jafnvel heimsækja hinn tignarlega Dettifoss. "Ég veit ekki... Hvernig er með bílastæði þar?" spurði ein jafnaldra mín þá sviplaust um leið og hún henti sígarettustubb á gangstéttina þar sem við stóðum. Ég varð kjaftstopp. Ekkert: "Já maður þyrfti nú að fara að upplifa náttúruna aðeins," eða "Dettifoss já, maður getur nú varla kallað sig Íslending ef maður hefur ekki skoðað Dettifoss," eða bara "Já það gæti verið fallegt að sjá Dettifoss." Það fyrsta sem viðkomandi hugsaði um voru bílastæðin.

Í hryllingsmyndinni Dawn of the Dead deildi leikstjórinn George Romero ákaflega á neysluhyggju nútímans og það tómlæti sem fólk er farið að sýna lífinu. Kristallaðist hugmyndin í því að uppvakningarnir drógust að verslunarmiðstöðvum, kjörnum samfélaganna. Nýleg endurgerð hinnar sígildu myndar hélt uppi gagnrýni Romeros og tómeygðir ráfuðu uppvakningarnir um bílastæði verslunarinnar. Nóg af bílastæðum, enginn á bíl.

Undanfarið hef ég farið að verða í auknum mæli var við það sem ég vil kalla "Smáralindaraugu" í fólki á mínum aldri og jafnvel mun yngra fólki. (Ég vona að þetta fari ekki illa í eigendur Smáralindarinnar, enda ekki beint gegn þeim persónulega.) Tómlæti gagnvart heiminum, eintóma neysluhyggju. Það eina sem kemst fyrir í huga þessa unga fólks eru peningar og hvernig er best að eyða þeim. Bílar, bílastæði, umferðin og útsölur virðast vera grundvöllur helmings samræðna fólksins með Smáralindaraugun, en hinn helmingurinn af umræðunum snýst um tísku, sjónvarp og nýjustu leiðir til að ná fitunni af rassinum á sér. Fitunni sem safnast á rassinn við að keyra allra sinna ferða. Fitunni sem safnast enn betur á bossann við að sitja í bílnum hring eftir hring á akreinum bílastæðanna, leitandi að hinu fullkomna bílastæði, vappa síðan inn á skyndibitastaðinn og kjamsa á hamborgara, frönskum og kók. Leggjast síðan "örmagna" fyrir framan imbakassann og drekka meira gos og borða snakk. (En ekki samt fyrr en maður hefur skilað sínum klukkutíma í ræktinni með börnin örugglega geymd í "ævintýralandinu.")

"Sá sem ekki lengur undrast er hættur að lifa," sagði Albert Einstein. Sá sem ekki lengur horfir út í heiminn, dáist að fegurð hans, hoppar af kæti yfir hinu góða eða hryllir við ljótleikanum og illskunni, heldur bara mænir með tómum "Smáralindaraugunum" út í loftið, þarf að vakna. Það er svo mikilvægt að lifa lífinu en ekki eyða því inni í bíl, inni í sjónvarpi, inni í verslunarmiðstöð. Tími er peningar, svo við skulum hugsa um hann sem slíka. Fjárfestum tíma okkar rétt, fjárfestum tíma okkar í hluti sem láta okkur vaxa sem manneskjur. Það er aldrei of seint að læra nýja hluti. Ég var sjálfur að byrja að læra að dansa samkvæmisdansa, það er æðislegt. Ég byrjaði líka á frönskunámi og hyggst halda því áfram næsta haust. Allt þetta er hluti af því að eiga meira og betra samfélag við annað fólk og heiminn. Það er að lifa lífinu.

Við verðum að undrast og við verðum að leyfa okkur að hneykslast! Við verðum að leyfa okkur að fyllast viðbjóði þegar við sjáum hvernig farið er með unglingsstúlkur í dag. Klámvæðing og sjálfsvirðingarleysi, óhollar og viðbjóðslegar líkamsfyrirmyndir og ávísanir á átröskunarsjúkdóma eru ekki bara dæmi um hið endalausa "heimur versnandi fer" tal. Það er raunveruleg ógn á ferð. Sífellt bylur á okkur einhver menningarleg afstæðishyggja um að ef við hneykslumst séum við bara ekki nógu opin fyrir hlutunum. En það er nefnilega í lagi að hneykslast á sumu. Þegar við hneykslumst er siðferðiskennd okkar að segja okkur eitthvað og við eigum að hlusta og meta málið. Stundum er hneykslunin innistæðulaus eins og t.d. þegar Silvía Nótt bullar, en stundum á hún rétt á sér, eins og þegar fjórtán ára stelpur fara í brjóstastækkunaraðgerðir eða þegar unglingsstúlkur eru narraðar út í kynlífsathafnir sem þær hafa hvorki líkamlegan, andlegan né félagslegan þroska til að stunda né skilja.

Við þurfum að vakna og vera vakandi. Lifna og vera lifandi. Að hneykslast er að undrast. Það er engin sæmd eða flottheit í því að vera eins og sauðkind á valíumi úti í haga. Það er hallærislegt að hneykslast á því sem fullorðið fólk gerir upplýst sín á milli, en þegar málin snúa að börnum og sjálfsmynd þeirra þurfum við að opna augun og berja í borð. Óheilbrigð sjálfsmynd er böl sem byrjar að mótast strax í æsku. "Ef þú ert óánægð með líkama þinn, farðu þá bara í sílíkon," segir ótrúlega illa upplýst manneskja í sjónvarpi gagnrýnislaust. Hvað með að byrja á því að breyta brengluðu sjálfsmati sínu?

Líkams- og peningadýrkun, siðferðisdoði og skeytingarleysi gagnvart náttúrunni eiga öll sömu rætur. Enginn hefur tíma né þor til að leyfa sér að undrast og elska heiminn. Allir eru svo mikið að drífa sig að passa inn í þau mót sem þeir halda að þeir þurfi að lifa inni í að þeir gefa sér ekki tíma til að stoppa og horfa í kringum sig, jafnvel leyfa sér að berast bara aðeins með lífsins straumi í stað þess að vera sífellt að reyna að finna betri bílastæði.


Pirringur - Viðhorf

Við verðum að gæta okkar ofboðslega vel á dagsformi okkar þegar við metum hlutina. Oft geta saklausustu orð snúist upp í eitur í hjarta okkar, einungis sökum þreytu og pirrings.

Það er merkilegt hvað dómgreind okkar og tilfinningalífið eins og það leggur sig eru háð duttlungum dagsformsins. Þegar maður er vel sofinn, úthvíldur, afslappaður og búinn að eiga góðan dag túlkar maður allt sem gerist á jákvæðan hátt, allt gengur upp, allt mun fara á besta veg. En þegar maður sefur illa, er stressaður eða pirraður yfir einhverju getur maður haft allt á hornum sér og gersamlega misst stjórn á tilfinningum sínum með hræðilegum afleiðinum.

Það er ferleg tilfinning þegar maður, annars dagfarsprúður og ljúfur, mistúlkar í pirringi og ýldu orð og athafnir fólks sem þykir vænt um hann og breytist í bölvandi naut. Niðurrifsáhrif slíkrar mistúlkunar og eyðileggingarmáttur slíkra neikvæðra tilfinninga geta verið hrikaleg. Svo ekki sé talað um þann skaða sem verður á sjálfstrausti manns og sjálfsáliti eftir uppákomuna.

Ég hef sjálfur byggt upp orðspor sem geðprúður maður með gott skap. Undanfarið hafa þó streita og pirringur eitthvað verið að hrjá mig. Lítill svefn, álag og tilfinningarót hafa valdið því að hinn annars dagfarsprúði Svavar breytist í einhvers konar tröllkarl sem baular og emjar af pirringi og gremju af minnsta tilefni. Þetta veldur nokkurs konar vítahring skapvonsku sem erfitt er að losna úr nema með gríðarlegu átaki, sem jafnvel getur falið í sér grát og gnístran tanna. Slík skapvonska getur fælt frá okkur fólk sem þykir vænt um okkur, fólk sem við þurfum á að halda. Þess vegna er ótrúlega mikilvægt að maður átti sig á hlutunum. Ég held að þetta sé kallað tilfinningagreind.

Pirringur og þreyta leiða til ofurviðkvæmni. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að vera sér vel meðvitandi um eigin líðan og andlegt og líkamlegt ástand. Spyrjum sjálf okkur: Hversu líklegt er að þessi manneskja, sem þykir vænt um mig og mér þykir vænt um, sé bara allt í einu að taka upp á því að vera með leiðindi við mig? Er ekki líklegra að ég sé þreyttur, pirraður, svangur eða með einhvern einmanaleika sem er að hrjá mig? Ef við öndum rólega og gefum okkur bara tíu sekúndur til að hugsa um hlutina út frá þessu sjónarhorni hljótum við að sjá að túlkun okkar á orðum og athöfnum viðkomandi er beintengd andlegu og líkamlegu ástandi okkar, dagsformi okkar. Viðkomandi á það skilið að við leyfum honum að njóta vafans í öllum samskiptum.

Ef við gefum okkur tíma til að staldra aðeins við og hugsa uppbyggilega í stað þess að bregðast strax við eins og naut í flagi hljótum við að sjá að fólk sem við eigum dagleg og góð samskipti við færi tæpast að taka það upp hjá sjálfu sér að skjóta skyndilega á okkur einhvers konar tilfinningalegum tundurskeytum. Öndum rólega og áttum okkur á því að líkamlegt og andlegt ástand okkar er oftar en ekki forsenda þess hvernig við túlkum heiminn. Heimurinn er ekki öðruvísi í dag en í gær, en við getum verið mun verr stemmd til að túlka hann.

En fyrst við erum nú á annað borð að tala um pirring, þá hef ég undanfarnar vikur fylgst með tveimur málum sem hafa valdið mér nokkrum pirringi. Annars vegar umræðan um það að trúfélögum sé veitt frelsi til að blessa sambönd samkynhneigðra og hins vegar umræðan um skopmyndirnar af Múhameð spámanni.

Umræðan snýst mikið til um skörun mannréttinda, trúfrelsis og tjáningarfrelsis. Annars vegar um mörk tjáningarfrelsis og virðingar fyrir trú og hins vegar mörk mannréttinda og virðingar fyrir trú.

Ég get ekki annað en brosað að því þegar ég heyri kristið fólk tala fjálglega um viðkvæmni múslima í garð "ósköp sakleysislegra skopmynda", þegar sjálf þjóðkirkjan mótmælir sjálfsögðum mannréttindum fólks til að njóta blessunar í samböndum sínum, jafnvel hjá öðrum trúfélögum.

Múslimar vilja ekki að teiknaðar séu myndir af spámanni þeirra. Gott og vel. Þrátt fyrir að sjálfur skrifi ég undir önnur siðalögmál en múslimar er ég tilbúinn til að hliðra tjáningarfrelsi mínu örlítið fyrir tillitssemi sakir. Mér er enginn skaði að því að teikna ekki skopmyndir af Múhameð spámanni.

Þjóðkirkjan og fleiri kristnir söfnuðir vilja ekki að samkynhneigðir fái trúarlega blessun sambands síns. Hér er hins vegar um að ræða alvarlegri skörun. Því ef við á annað borð viðurkennum að samkynhneigðir séu jafnir gagnkynhneigðum í þessu samfélagi og eigi inni sömu réttindi hljóta sömu lög að eiga að gilda um sambönd þeirra. Væri ég samkynhneigður þætti mér það mikil skerðing á mannréttindum að eiga ekki tilkall til blessunar sambands míns og maka míns. Mun alvarlegri skerðing en að mega ekki ögra ákveðnum trúarhópum með því að teikna heilagasta spámann þeirra með sprengjutúrban.

Lögin sem um er rætt eru ekki að fara að þvinga þjóðkirkjuna til neins. En þau munu leyfa þeim trúfélögum sem það vilja að blessa sambönd samkynhneigðra. Þjóðkirkjan vill s.s. meina ásatrúarmönnum og búddistum að blessa sambönd. Það er rétt eins og ef múslimar vildu banna öllum öðrum trúarbrögðum að teikna myndir af sínum spámönnum og guðum. Búdda, Kristur, Ganesh og Óðinn mættu ekki teiknast. Er það ekki dálítið meiri mannréttindaskerðing? Hvaða rétt eigum við á að tala um ofstæki?

Við hneykslumst á því að mega ekki taka upp á "smávegis ögrun" á meðan við, sjálfumglaðir Vesturlandabúar, höldum aftur af sjálfsögðum réttindum fólks til að njóta trúarlegrar blessunar. Fáránlegar röksemdir um að íslensk tunga hrynji ef skilgreining hjónabands breytist og hreint út sagt ótrúlegar fullyrðingar um að hjónabönd fari á ruslahaugana ef samkynhneigðir fái blessun. Meira að segja fullyrða sumir að eins gætum við leyft manni og sauðkind eða manni og barni að fá blessun sambands síns. Er orðum eyðandi á svona rök? Við erum að tala um tvær fullorðnar manneskjur sem eru ástfangnar og njóta í öllu samfélagslegrar viðurkenningar á sambandi sínu.

Kannski ættu biskup og skoðanabræður hans að athuga hvort þeir séu eitthvað pirraðir eða illa sofnir þessa dagana?


Fjölskylda - Viðhorf

Þegar nýr fjölskyldumeðlimur bætist við í fjölskyldu okkar dettur okkur heldur ekki í hug að hundsa hann og hafa ekki með í fjölskylduathöfnum.

Frá því ég var lítill drengur hefur mig alltaf dreymt um heim þar sem allir búa saman í sátt og samlyndi, en eftir því sem ég eldist geri ég mér sífellt betur grein fyrir því hvað þessi draumur er bæði fjarlægur og óraunsær. Ótti, átök og óöryggi virðast liggja djúpt í mannlegu eðli og ég er ekki frá því að í þessum dimmu hornum mannssálarinnar leynist hlutar af því sem gerir manninn sérstakan, rætur ýmissa framfara og uppgötvana mannsins. Engu að síður óska ég einskis frekar en að fólk geti lifað saman í friði.

Á dögunum kom út könnun sem gerð var fyrir Rauða kross Íslands þar sem í ljós kom að viðhorf unglinga í efstu bekkjum grunnskóla til nýbúa eru að færast til hins verra. Mig hryllir við þeirri tilhugsun að fordómar ungs fólks gegn fólki af erlendum uppruna séu að aukast hér á landi.

En hverjar eru orsakir þessara auknu fordóma og óvildar unglinga gagnvart fólki sem kemur hingað frá löndum utan Vestur-Evrópu? Hvers vegna er ungt fólk, sem ætti að vera opið fyrir nýju fólki, nýjum hugmyndum, farið að óttast svo hið óþekkta?

Ég viðurkenni það fyrstur manna að mér er meinilla við tónlistarmyndbönd þau sem tröllríða öllu þessa dagana. Þar hoppa rapparar um með gullkeðjur, seðlabúnt og skotvopn ásamt því sem fjórða eignin, næstum allsnakin gjafvaxta kona, helst í fleirtölu, dillar sér og nuddar sér utan í "hetjuna" eða bíl hennar. Margir gætu tengt þetta við kynþáttafordóma, en mér er einfaldlega meinilla við þá efnishyggjudýrkun og kvenfyrirlitningu sem birtist í þessum myndböndum. Þá ýta þau enn frekar undir þá hugmynd hjá ungu fólki að það sé flott að vera vondur, að vera harður og svalur, eiga illa fengna peninga og níðast á konum. Ég held að þrátt fyrir að í þessum myndböndum sé fyrst og fremst að finna aðila af framandi húðlit séu þau engu að síður hluti af því vandamáli sem við stöndum frammi fyrir. Þau ala á óþoli og ofbeldi gagnvart þeim sem ekki eru "kúl".

En sleppum nú gerviglæpamönnunum aðeins. Meginrót vandamálsins er ekki að finna á Popptíví, Skjáeinum eða á Netinu. Meginrót vandans liggur hjá okkur, hjá foreldrum, fjölskyldum, kennurum, stjórnmálamönnum, blaðamönnum og öllum þeim sem móta hugarheim ungs fólks.

Hluta vandamálsins má án efa rekja til foreldra sem smita börn sín af fordómum sínum. Foreldra sem nota niðrandi orð um nýbúa á heimilunum. Það er lítið við því að gera annað en að vona að foreldrarnir sjái að sér eða vinna í þessu með börnunum í skólunum.

Stóra vandamálið felst þó í eftirfarandi: Íslendingar hafa til langs tíma þjáðst af sama raggeitarskap, í samskiptum við nýbúa, og aðrar vestrænar þjóðir. Við höfum tekið á móti þeim og komið þeim fyrir og síðan ekki söguna meir. Við höfum ekki dirfst að skipta okkur af þeim og vinna með þeim að því að aðlagast okkar samfélagi. Nýbúar einangrast, þeir læra ekki tungumálið. Unglingarnir eignast ekki íslenska vini og taka ekki þátt í félagslífi eða íþróttum. Af hverju? Af því að lítið sem ekkert hefur verið gert til að toga þá út úr einangruninni. Þess vegna hanga unglingarnir saman í klíkum óöryggis, "asískum gengjum". Það má ekki taka þessi mál vettlingatökum.

Vissulega hafa Rauði krossinn, Alþjóðahúsið og félagsmiðstöðin 100og1 auk fleiri aðila unnið aðdáunarvert starf en betur þarf ef duga skal. Það er sama hversu upplýstur maður er, óttinn og vanlíðanin sem maður upplifir þegar maður sér klíku af utangarðsunglingum framundan hefur sig yfir alla upplýsingu. Ekkert magn fræðslu í grunnskólum kemur í staðinn fyrir að leiða saman ólíka hópa og láta þá vinna saman að verkefnum, félagsstarfi og íþróttum. Skellum krökkunum saman í fótbolta hæfilega blandað í nokkrar vikur og sjáum hvað gerist.

Fólk af erlendum uppruna kemur hingað í tvennum tilgangi, annars vegar sem gestir og hins vegar sem nýir fjölskyldumeðlimir í íslensku samfélagi. Þrátt fyrir eðlilegar reglur gestrisninnar líður góður gestgjafi gestum sínum ekki hvers konar hegðun sem er. Þegar nýr fjölskyldumeðlimur bætist við í fjölskyldu okkar dettur okkur heldur ekki í hug að hundsa hann og hafa ekki með í fjölskylduathöfnum.

Það má segja að nýbúar séu nýir meðlimir í fjölskyldunni Íslandi. Þeir verða að virða húsreglur og siði fjölskyldunnar og laga sig að þeim og við verðum skilyrðislaust að koma til móts við okkar nýju bræður og systur, kenna þeim almennilega íslensku, gera þeim grein fyrir okkar siðum og takmörkum og taka þau með okkur í leiki og starf.

Það að taka vel á móti útlendingum sem koma hingað til að búa er ekki að láta allt eftir þeim og láta þá afskiptalausa. Það er heldur ekki að ætlast til þess að þeir hætti öllum sínum siðum og menningu. Markmið okkar hlýtur að vera að leggja rækt við sérstöðu okkar nýju landsmanna og um leið að tryggja að sú sérstaða brjóti ekki ramma laga og siða, þess sem hér er talið gott og rétt. Sem samfélag hljótum við að gera kröfur til okkar sjálfra og einnig til gesta okkar og nýrra Íslendinga. Við verðum að hafa þroska til að aðgreina neikvæða þætti menningar frá jákvæðum þáttum. Við verðum líka að hafa þroska til að brjóta ísinn gagnvart fólki og draga það inn í samfélagið, draga það með í leiki og starf. Annars getum við kvatt allar tálsýnir sem við höfum um opið samfélag umburðarlyndis og kærleika. Íslendingar ættu að vera manna færastir um að "taka á þessu."


Fylgjum draumum - Viðhorf

Ef við lærum það sem við viljum og þráum höfum við brennandi áhuga á efninu og munum skara fram úr í því. Það þýðir að við munum fá vinnu í því. Ekki satt?

Fyrir nokkrum árum átti ég samræður við frænda minn sem er dálítið í ríkari kantinum. Við vorum í erfidrykkju, en fyrir einhvers konar undarlega alheimstilviljun virðist maður aðeins rekast á suma ættingja sína á slíkum uppákomum. Á þessum tíma var ég að vinna á leikskóla og fannst launin nokkuð lág miðað við þá ábyrgð sem ég hafði. Ekki vorkenndi ég þó sjálfum mér, enda var ég bara flónskur námsmaður, upptekinn af fegurð lífsins. Hins vegar fannst mér illa vegið að leikskólakennurunum sem höfðu óskaplega svipuð laun og ég fyrir gríðarlega ábyrgð. Ég minntist á þetta við frænda minn, skýrði fyrir honum ábyrgðina sem felst í því að vinna með börnum og það óréttlæti sem felst í því að fólk í umönnunarstörfum sé sett í einhvers konar ruslaflokk þegar kemur að launum. Frændi minni kláraði að tyggja snittuna sem gerði honum ókleift að stoppa í mér rausið og svaraði síðan í föðurlegum tón: "Þú finnur eitthvað betra."

Ég vissi ekki alveg hvað ég átti að halda en síðan rann það upp fyrir mér. Fólkið sem á peningana í þessu blessaða samfélagi lítur greinilega svo á að í fræðslu- og umönnunarstörf veljist fólk sem "hefur ekki fundið almennilega vinnu," eða "skortir metnað".

Þetta fannst mér alveg lýsandi fyrir það viðhorf sem ég mætti þegar ég kom síðar út úr skápnum með þá staðreynd að ég hygðist læra heimspeki í Háskólanum. "Bara heimspeki?" spurði fólk, eða: "Og hvað ætlarðu svo að vinna? Vera heimspekingur? Ho-Ho-Ho..." Sumir spurðu mig hvort ég ætlaði ekki frekar í einhvers konar tölvufræði eða viðskiptafræði, þar væri peningurinn.

Ég furðaði mig alltaf á þessu. Ég mætti allt of oft þeim hugsunarhætti að ef maður væri að læra heimspeki, gæti ekki verið að maður hefði námsgáfur. Maður hlyti að vera einhvers konar dreymandi hippi sem gæti ekki hugsað sér að vinna ærlega vinnu og sæti mókandi í eiturlyfjavímu og drykkju á einhverjum kaffihúsum daginn út og inn ræðandi einhverja spútnikheimspekinga og talandi gáfumannatal. Jæja, einn af þremur er sosum ekki slæmt. Ég er óttalega dreyminn hippi stundum og þykir voðalega vænt um náttúruna, en hef hins vegar aldrei náð tökum á gáfumannatali og því síður neyslu áfengis, tóbaks eða annars eiturs. Það má í raun segja að ég eigi við drykkjuvandamál að stríða, vegna þess að ég kem yfirleitt ekki meir en þremur bjórum ofan í magann á mér.

En ég fór ekki í heimspeki af því að ég er vitlaus. Raungreinar eru í miklu uppáhaldi hjá mér og ég er mjög áhugasamur um hin ýmsu vísindi og tækni. Ég vildi bara ydda á mér hugann með því að nema gagnrýna hugsun og aðferðafræði heimspekinnar. Þessi fræði hafa gagnast mér mjög víða, bæði persónulega og í atvinnulífinu og ég sé svo sannarlega ekki eftir því að skrifa mína BA-ritgerð í heimspeki.

"Hvað ætlarðu að vinna?" spurði fólk og ég þurfti sífellt að klifa á sama svarinu, að heimspekinga væri að finna mjög víða í atvinnulífinu, þeir væru bara ekki margir í hverju fyrirtæki, svo það væri ekki alltaf auglýst eftir þeim sérstaklega. Hins vegar kæmi það fólki á óvart hvað heimspekingar dreifast víða og vinna fjölbreytt störf. Hér sit ég, blaðamaðurinn og skrifa, á meðan nokkrir af helstu yfirmönnum Sony fljúga milli landa, menntaskólakennarar troða þekkingu inn í höfuðin á börnum og hönnuðir láta sér detta í hug sniðugar lausnir á ýmiss konar vandamálum. Allir eigum við blessaðan Sókrates sameiginlegan. Við vinnum með hausunum. Vá!

Það er stundum eins og fólk geti ekki ímyndað sér að maður geti unnið við eitthvað annað en stendur á prófskírteininu, en það er algerlega rangt. Kennarar geta þróað hugbúnað, verkfræðingar geta annast börn og læknar geta farið á skakveiðar. Grundvallaratriði í þessu máli er að við eigum ekki að læra eitthvað með það fyrir augum að peningarnir séu þar. Ef við gerum það, þá erum við að skrifa upp á ævilanga óhamingju og einnig að við verðum í raun aldrei eins góðir starfsmenn og við gætum orðið. Ef hjartað er ekki með þá erum við týnd. Þess vegna eigum við að læra það sem okkur langar, nákvæmlega það sem hjartað segir okkur að læra, ekki hlusta á "skynsemina" því "skynsemin" er alltaf að reyna að eyðileggja drauma okkar. Í rauninni er það sem við viljum stundum kalla "skynsemina" bara efasemdir okkar og óöryggi sem kallar á "öruggar og reyndar lausnir."

Ef við lærum það sem við viljum og þráum höfum við brennandi áhuga á efninu og munum skara fram úr í því. Það þýðir að við munum fá vinnu í því. Ekki satt?

Á nákvæmlega sama hátt getum við litið í austurátt. Uppi á Kárahnjúkum er nú í undirbúningi að flytja inn 150 þæga starfsmenn sem Impregilo getur farið með eins og því sýnist. Til hvers? Til að byggja mannvirki sem hefur þann eina tilgang að kæfa drauma fólks og fara eftir "skynseminni" sem er ekkert annað en réttlæting efasemda um eigin ágæti og getu til að ná árangri.

Álverið á Reyðarfirði er ekkert annað en svar Valgerðar Sverrisdóttur, nýslegins stórriddara, og forvera hennar, Finns Ingólfssonar, við spurningunni: "Hvaða drauma á íslenska þjóðin?" Og svarið er: "Hættu að láta þig dreyma og farðu öruggu leiðina eins og pabbi þinn."


Pant ekki vera "töff" - Viðhorf

Nú gætu einhverjir haldið að ég væri "gamall íhaldsklerkur úr kalda stríðinu", en ég er tuttugu og átta ára spjátrungur. Ég hef hins vegar ekkert gaman af því þegar fólk horfir á aðra og dæmir þá vegna þess að þeir falla ekki inn í fyrirfram ákveðið mót félagslegrar hlýðni.

Í dálkinum Kirkjustarfi undir Stað og stund hér í blaðinu er svonefnt TTT-starf fyrir ungmenni auglýst, en TTT stendur fyrir töff, töfrandi og taktfast. Fyrsta orðið finnst mér í mikilli mótsögn við tilgang starfsins. Mér finnst einmitt ekkert "töff" eða "kúl" við það að finna trú og eiga í trúarlegu samfélagi.

Nú gæti einhver óvarkár lesandi stoppað og sagt við sjálfan sig: "Jæja, er nú enn einn gáfumaðurinn að gera lítið úr trúnni," en svo er ekki. Ætlun mín er alls ekki að gera lítið úr trú eða neinu öðru sem er andstætt því sem er "töff" eða "kúl." Í öðru lagi er ég sosum enginn gáfumaður.

Hvað er "töff"? Hvað er "kúl"? Hvað felst í þessum hugtökum, sem gegnumsýra vestræn samfélög nútímans? Skeytingarleysi, tilfinningakuldi, fálæti, yfirlæti og hroki eru það sem felst í "kúlinu". Að vera sama um aðra og gera lítið úr tilfinningum og hlýju. Að láta helst sem minnst sjást í mennsku sína og innri mann og leyfa yfirborðinu að njóta sín.

Heilbrigt trúarlegt samfélag ætti ekki að snúast um "töff" og "kúl" heldur einlægni, gæsku, hlýju og opin samskipti þar sem fólk getur sagt það sem í hjarta þess býr án þess að eiga á hættu að verða að athlægi. Ungt fólk á rétt á því að upplifa stað og stund þar sem það getur verið það sjálft, óháð öllum markaðslögmálum tilfinningakulda og tilgerðar.

Nú er ég alls ekki að meina að TTT-starf kirkjunnar sé neitt sérstaklega "töff", það er það örugglega ekki. Ég er í raun viss um að þar er áherslan lögð á hlýju og einlægni, en engu að síður hefur "töff"-væntingunni tekist að smygla sér þarna inn eins og sykruðum gosdrykk í barnaafmæli.

Ég er ekki kúl eða töff maður, síður en svo, ég er eiginlega alveg rosalega eðlilegur maður. Ég kaupi þau föt sem mér finnst ódýrust og hagnýtust hverju sinni. Ég á hlýja sokka og úlpu og geng í gömlum og úldnum strigaskóm því ég set flest annað ofar í forgangsröðina en að eiga flotta skó. Ég kann ekki að svara fálætislega þegar einhver segir eitthvað við mig og ég er yfirhöfuð nokkuð áhugasamur um flest sem fólk hefur að segja.

Samfélagið sem við búum í er fullt af áreitum. Hvort sem um er að ræða börn, unglinga, ungt fólk eða eldra fólk er fólki stanslaust sagt að það þurfi að tileinka sér þessa firringu hlýju og skeytingar til að virka í samfélaginu. Ungu fólki er snemma kennt að það sé ekki "kúl" að vera eldri en þrítugur, fölur, þenkjandi, trúaður, hlýlegur, einlægur, sjálfstæður, náttúruverndarsinni, upplýstur eða forvitinn. Og ef það er ekki "kúl", þá eru þeir sem stunda það algjörlega undirmáls.

En hvað er "kúl"? Ef marka má tónlistarmyndbönd og þau viðhorf sem ég upplifi í samfélaginu gæti það verið eftirfarandi: Auðhyggja, uppsöfnun stöðutákna, tilfinningakuldi, jakkaföt, flottir bílar, fýldur fyrirlitningarsvipur, fordómar og skeytingarleysi um tilfinningar annarra, yfirborðsmennska og tilgerð, að falla í fjöldann, ganga í tískufötum, elta tískubylgjur og helst að fylgjast svo vel með þróun þeirra að svo virðist sem viðkomandi fljóti fremst á bylgjunni, hverrar eini tilgangur er að útiloka hluta samfélagsins frá gjaldgengi.

Af hverju er ungu fólki boðið gegndarlaust upp á þessar fyrirmyndir? Af hverju er þessari lífssýn haldið að börnum? Hvers vegna er fyrirlitningu og tilfinningakulda gert hátt undir höfði?

Nú gætu einhverjir haldið að ég væri "gamall íhaldsklerkur úr kalda stríðinu", en ég er tuttugu og átta ára spjátrungur. Ég hef hins vegar ekkert gaman af því þegar fólk horfir á aðra og dæmir þá vegna þess að þeir falla ekki inn í fyrirfram ákveðið mót félagslegrar hlýðni. Sem ungur og hress maður get ég ekki sætt mig við slíka andlega og tilfinningalega hægðatregðu, því hvað liggur í raun að baki "kúlinu"? Jú, þeir sem stunda þennan leik láta gjarnan sem þeim sé sama um hvað öðrum finnst og þeir séu ónæmir fyrir heiminum, en ekkert gæti verið fjær hinu sanna. Töffaraskapur og tilfinningakuldi er ekkert annað en holdgervingur þeim mun meiri minnimáttarkenndar og óöryggis. Fólk sem lúrir í flottræfilshættinum og tilgerðinni er yfirleit svo hryllilega óöruggt um sjálft sig að það þorir ekki fyrir sitt litla líf að gefa í skyn að það sé mannlegt og hugsi sjálfstætt.

En hver er þá andstæðan? Felst hún ekki einmitt í því að játa á sig og sætta sig við eigin bresti og veikleika, eigin mannleika? Að viðurkenna fyrir sjálfum sér og öðrum að maður er eftir allt saman bara brothætt og viðkvæm lífvera sem þarf innilega á samfélagi við aðra að halda og þráir fátt meir en viðurkenningu, virðingu og vináttu annarra manna? Það er enginn minni maður fyrir að játa sínar andlegu og félagslegu þarfir, sem langoftast snúast einmitt um samfélag við aðra menn.

Ég legg til að við fögnum hinu hallærislega, tökum skrýtnum áhugamálum, einlægni, náttúruást og sérvisku opnum örmum og sjáum hvernig samfélag við náum að skapa ef við opnum augun fyrir fjölbreytileikanum, en festum okkur ekki í þurrpumpulegum töffaraskap. Leyfum okkur að vera blíð, opin, ljúf, hlý, andlega og félagslega þenkjandi. Gefum okkur frí frá endalausri hjarðmennsku efnishyggju og neyslu og eigum góða stund með vinum án áfengis og grímu töffaraskapar. Það er vel þess virði.


Mín græna lífssýn - Viðhorf

Sumir menn geta ekki hugsað sér að verðmæti geti verið óháð manninum, en eins væri hægt að líta svo á að þar sé frekar um að ræða takmarkað ímyndunarafl og siðferðisþroska viðkomandi, en heimsku eða einfaldleika náttúruverndara.

"Þið umhverfissinnarnir eruð á móti öllum framkvæmdum og öllum framförum. Þið eruð á móti fólki! Þið viljið ekki að það sé hægt að búa í þessu landi!" Þessi orð, eða eitthvað svipað, hef ég margoft heyrt þegar ég geri heiðarlega tilraun til að ræða málefni á málefnalegan hátt. Ég treysti því að flestir lesendur geri sér grein fyrir þeim fáránlegu og sorglegu rökvillum sem felast í þessum orðum hér að ofan. Ég treysti því ennfremur að lesendur geri sér grein fyrir ósanngirninni sem felst í þeim og því að þau eiga hvergi heima í rökræðu siðmenntaðra manna.

Ég hef í undanförnum viðhorfum reynt að skýra viss grundvallaratriði um tengsl eða samtvinnun skynsemi og tilfinninga. Grundvallarhugmynd mín er sú að skynsemi geti ekki verið til án tilfinninga, enda séu þær mælikvarði réttlætis, fagurfræði og ástar, sem öll skynsemi hlýtur að hvíla á, ef hún á, á annað borð, að vera mannleg en ekki vélræn.

Ég vil í þessu ljósi beina athygli lesenda að náttúrusýn náttúruverndarsinna. Gjarnan reyna þeir sem hinum megin borðsins standa að uppnefna hana einkar málefnalega "náttúruvernd hinna svörtu sanda" eða "Svokallaðir (eða sjálfskipaðir) umhverfisverndarsinnar" í því skyni að eyðileggja málstaðinn viðmælandans fyrirfram. Þetta er vissulega leitt, en mig langar þó til að reyna að skýra náttúruvernd í stuttu máli.

Náttúruverndarhugsjónin felst ekki í því að vera á móti fólki. Hún felst frekar í eftirfarandi hugsun: Náttúran á sér vissan tilverurétt, óháð manninum. (Ég bið þig kæri lesandi að gefa þessari hugsun tækifæri, þó ekki nema fyrir trúarlegt umburðarlyndi.) Til eru fyrirbæri sem hafa verðmæti óháð notagildi þeirra, óháð okkur mönnunum. Verðmæti þeirra felast í tilvist þeirra og engu öðru. Sumir menn stranda á þessu og geta ekki hugsað sér að verðmæti geti verið óháð manninum, en eins væri hægt að líta svo á að þar sé frekar um að ræða takmarkað ímyndunarafl og siðferðisþroska viðkomandi, en heimsku eða einfaldleika náttúruverndara.

Við mennirnir höfum komist á það stig að við getum með tiltölulega einföldum hætti valdið gríðarlegri röskun á heild lífríkisins og skilyrðum annarra lífvera til að blómstra. Í ljósi þessa valds og máttar okkar til eyðileggingar, er okkur það skylt að sýna náttúrunni tillitssemi. Við eigum að koma fram við náttúruna af virðingu og reyna að takmarka þá röskun sem við völdum.

Í því felst í grundvallaratriðum ferns konar hegðun af hendi okkar mannanna:

1.Við reynum að takmarka neyslu okkar og gæta að "gerviþörfunum".

2.Við reynum að takmarka umsvif okkar og ekki menga eða spilla umhverfi utan okkar athafnasvæðis.

3.Þegar neysla okkar og umsvif hafa valdið skaða reynum við að bæta fyrir hann.

4.Við reynum í hvívetna að leyfa náttúrunni að hafa sinn gang þar sem ekki liggur lífið við.

Þessi viðhorf eru ekki í andstöðu við manninn. Þau þýða ekki að maðurinn þurfi að víkja eða að náttúran gangi fyrir. Þau þýða að maðurinn þarf að gæta náttúrunnar sem þess viðkvæma fyrirbæris sem hún er. Þau þýða að þegar við stöndum frammi fyrir valkostum verðum við að reikna hagsmuni náttúrunnar inn í valið, þótt hún geti ekki sjálf tjáð sig.

Náttúruvernd þýðir þannig að í stað þess að velja auðveldar lausnir skógarhöggs, námuvinnslu úr yfirborðinu, stóriðju og sífellds ágangs á auðlindir, reynum við frekar að nýta ímyndunaraflið og hugvitið til að skapa tækifæri. Það er til dæmis staðreynd að Vesturlandabúar eiga nóg af flugvélum, bílum og öðrum hlutum sem búnir eru til úr málmum og efnasamböndum, en við eigum ekki nóg af vísindalegum framförum, framförum mannsandans og slíku. Í okkar heimi er efnisleg neysla alveg nógu mikil og vel þess virði að huga meir að raunverulegum þörfum mannsins.

Ég trúi því ekki að hagvöxtur sé endanlegur mælikvarði á hamingju fólks og félagsfræðilegar og hagfræðilegar rannsóknir hafa sýnt fram á að svo er ekki. Í einu landi getur bæði rúmast mikill hagvöxtur og samfara honum aukin vanlíðan almennings. Vissulega er erfiðara að mæla vísa eins og samfélagslega meðvitund, læsi og lesskilning og upplýsingu samfélaga, en þar er mun meiri hamingju að finna en í aukningu á verðmæti þjóðarframleiðslu.

Viðhorf náttúruverndarsinna eru viðhorf einstaklinga sem leggja áherslu á margt annað en efnisleg gæði. Náttúruverndarsinnar hugsa lítið um peninga, föt, bíla eða flottheit. Þeir vita lítið um hvað er flott eða hvað er "inn" og eru ekki upp til hópa sérlega góðir í að tjá sig á þann kaldhæðna og óeinlæga hátt sem þykir flottur í nútímasamfélagi, sem reynir sífellt að firra sig tilfinningum til að réttlæta neysluna.

Náttúruverndarsinnar vilja ekki að fólk flæmist úr sveitunum, heldur viljum við að fólkið sjálft finni lausnir í sátt við sitt umhverfi. Nú eru sveitungar mínir Skagfirðingar að tala um fyrirhugaða Skatastaðavirkjun og Valgerður Sverrisdóttir hoppar hæð sína af kæti í einlægri stóriðjuhyggju sinni. Fólki hefur fjölgað í Skagafirði undanfarið. Atvinnuástandið er alls ekki slæmt og þar eru ferðaþjónusta og menntasetur í örum vexti. Hvers vegna að byggja undir eina atvinnugrein með því að skemma fyrir annarri?


Göngu-Hrólfur hinn minni - Viðhorf

"Þegar maður leitar til prests reynir hann ekki að skoða fortíðina, heldur reynir hann að gefa manni raunveruleg tól til að takast á við lífið. Vopn eins og æðruleysi, trú, von, kærleik og kjark."

Ég á í undarlegu ástarsambandi við göngutúra. Ég elska að ganga milli staða, en ég hef alveg hræðilega tilhneigingu til að drolla svo lengi að ég neyðist til að aka þangað sem ég er að fara. Það leiðist mér, því fátt er mér óljúfara en að keyra stuttar vegalengdir ef ekki viðrar til þeim mun meiri kalsára og vosbúðar.

Mér hefur alltaf fundist umferðarmenning höfuðborgarinnar minna á enska matargerðarlist, bandaríska réttlætiskennd eða þýskan húmor. Hún er eiginlega fullkomlega misheppnuð frá upphafi til enda. Kannski er bíllinn einhvers konar höll Íslendingsins, staðurinn þar sem hann er kóngur og ríkir einn yfir sínum veruleika. Nógu fjári eru margir einir í bílunum sínum.

Ég hef stundum lent í því að aka inn á Laugaveginn á daginn. Það eru stór mistök, því Laugavegurinn er stútfullur af fólki sem er að leita að hinu heilaga grali bílastæðanna, bílastæðinu sem er inni í búðinni, við hliðina á flíkinni sem það ætlaði að kaupa sér en átti eftir að leita að. Fólk ekur hring eftir hring Laugaveg, Lækjargötu, Hverfisgötu, Snorrabraut og aftur inn á Laugaveg í stað þess að stoppa einhvers staðar, fara út úr bílnum og labba einhverja fimmtíu metra að búðinni. "Það er alltaf svo leiðinlegt veður á Íslandi," segir einn, "svo langt milli staða," vælir annar. Bansett húmbúkk er þetta, húmbúkk og væl. Áar mínir gengu á sauðskinnsskóm þvert yfir hálendið til að ná í nokkrar rollur eða kíkja í teiti. Mönnum ætti ekki að vera vorkunn að bregða undir sig betri fætinum í stað þess að bíða dauða síns bak við stýrið.

Eitt af mínum uppáhaldsorðum er orðið "lífsstílssjúkdómur". Það minnir mig alltaf á Innlit-Útlit, þáttinn þar sem orðið "já" er sagt oftar en í brúðkaupsþættinum Já, og því fylgir ævinlega orðið "æðislegt". Hjartasjúkdómar, bakverkir, brjóstsviði, taugaveiklun, anorexía, búlimía og kvíðaröskun eru allt prýðileg dæmi um þá kvilla sem fylgja okkar firrtu tímum. Nú gætu sumir sett upp svipinn margfræga og sagt: "Æi, er hann Svavar nú að fara að segja okkur að heimur versnandi fari eins og allir hinir?" En nei, ég er ekki að fara að segja það. Vonbrigði mín snúast ekki um það að heimurinn fari versnandi, heldur að hann batni ekki hætishót þrátt fyrir allar okkar tækniframfarir.

Fólk situr allan daginn eða vinnur í vondri líkamsstöðu, oft einhæfa vinnu með lítilli hreyfingu. Svo keyrir það á bílunum sínum í líkamsrækt og eyðir þar klukkutímum sem það hefði kannski bara átt að nota til að labba í vinnuna. Gönguferðir í vinnuna hreinsa hugann og gefa manni hugmyndir, þær hjálpa manni að sjá hlutina í öðru ljósi og lífga upp á andann.

Á dögunum sat ég í leigubíl (aldrei þessu vant) og sá vin minn gangandi, hann var á leið í strætó niður í bæ og ég bauð honum að hoppa upp í bílinn. Því næst brugðum við á örsnöggt spjall um lífið og tilveruna og rifjuðum upp stöðu mála frá því við hittumst síðast fyrir rúmu ári.

Félaginn hafði lagt stund á sálfræði en nýverið fært sig yfir í guðfræðina. Ég spurði hann hvort markmið námsins væri að verða sálusorgari og hann játti því.

Nú er ég ekki mikill kirkjunnar maður, en ég sá allt í einu fyrir mér að góður prestur getur gert ótrúlega margt sem sálfræðingar gætu jafnvel flækt fyrir okkur.

Einn af lífsstílssjúkdómunum í dag er þessar endalausu vangaveltur um hvers vegna við erum eins og við erum. Fólk fer úr vinnunni sinni og dvelur langdvölum uppi í sófa hjá fólki sem reynir að draga upp úr því fortíðina og reyna að komast til botns í hlutunum. Af hverju erum við að því? Hvers vegna ekki að lifa í núinu og í framtíðinni?

Þess vegna finnst mér að í mörgum tilfellum geti prestar eða trúmenn gert mikið gagn. Þegar maður leitar til prests reynir hann ekki að skoða fortíðina, heldur reynir hann að gefa manni raunveruleg tól til að takast á við lífið. Vopn eins og æðruleysi, trú, von, kærleik og kjark. Þetta eru allt mikilvægir eiginleikar sem við þurfum að temja okkur í stað þess að velta okkur upp úr eigin vandamálum og væla yfir þeim í sífellu. Það má hver sem er vita að ég er sjálfur ekki barnanna bestur þegar kemur að því að velta mér upp úr sjálfsvorkunn öðru hvoru.

Ég fagnaði því þessari ákvörðun vinar míns, því hann er bæði hjartahlýr og laus við alla helstu fordóma sem prýða því miður suma einstaklinga í hans nýju starfsstétt. Ég held að hann eigi svo sannarlega eftir að gera heiminum mikið gagn.

Þegar ég var í háskóla blundaði í mér lúmsk löngun til að gerast prestur og hjálpa fólki í kreppu með því að færa því von og styrk. Ég hætti við sökum skorts á trú á guðsorð, sem mér skilst að sé nokkuð mikið grundvallaratriði í hæfniskröfum presta. Ég trúi í hjarta en ekki í höfði, þótt ég trúi því að höfuð og hjarta séu ekki aðskilin líffæri þegar kemur að skynseminni. Ég er þannig klofinn hið innra gagnvart guði, eins og svo margir breyskir menn.

Þetta stutta viðhorf var í boði göngutúrs frá Morgunblaðshúsinu að Austurbæjarbíói gamla og síðan heim. Og ég á meira að segja einn pistil og tvö ný dægurlög inni eftir þessa sömu ferð. Já, göngutúrar geta svo sannarlega leitt af sér hugleiðingar og hugmyndir og ég hvet alla sem lesa þessi orð til að búa til sína eigin litlu bíllausu daga, til að lífga upp á tilveru sína og hressa líkama og sál.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband