Loksins Frjáls - Viðhorf

Gunnar í Krossinum hefur frelsað mig úr hlekkjum rökstuðnings, hlutlægni og orsakasamhengis. Loksins má ég bulla eins og ég vil án þess að hafa áhyggjur af sannleiksgildinu.

Gunnar "í Krossinum" Þorsteinsson fékk sunnudaginn 26. febrúar sl. birta hér í blaðinu grein sem ég tók svo sannarlega fagnandi, eins og frelsandi vindi sem hrindir burt fjötrum hversdagsleikans. Umfjöllunarefni Gunnars var kunnuglegt og sosum ekki nýtt af nálinni, óþol hans á samkynhneigðum og viðurstyggð sú sem hann hefur á þeim sem ganga aðra vegi en hann kýs. Það hefur hingað til ekki þótt tíðindum sæta að ofstopamenn túlki bókstafi trúarrita til að henta sinni stefnu. Hvers vegna ættu hryðjuverkamenn sem kenna sig við íslam að eiga einkarétt á því?
En eitt var alveg frábært við grein Gunnars sem gefur mér ástæðu til mikillar bjartsýni og gleði. Gunnar skellti fram sjö "staðreyndum" um samkynhneigða og börn þeirra án þess að rökstyðja þær nokkuð frekar með hlutlausum rannsóknum, rökrænum tengslum eða neinu.

Við skulum fara yfir fullyrðingar Gunnars stuttlega. Svo við höfum "staðreyndirnar" okkar á hreinu:

1. Börn samkynhneigðra eiga á hættu að alast upp við óvissu um kynhlutverk sitt. (En áhugavert. Mér þætti nú gaman að sjá þá hlutlausu rannsókn sem sýndi fram á það.)

2. Börn samkynhneigðra eru hneigðari til fjöllyndis. (Enn og aftur væri spennandi að sjá þessa rannsókn, en bara svona fyrir mína forvitni.)

3. Börn samkynhneigðra eru í meiri hættu á að missa foreldri (alnæmi, lyfjaneysla, sjálfsvíg (og skoðanabræður Gunnars í Krossinum að berja úr því líftóruna)). Ævilíkur samkynhneigðra karla eru aðeins um fjörutíu ár. (En hvað með ævilíkur samkynhneigðra karla sem bindast hvor öðrum og ala upp barn saman?)

4. Börn samkynhneigðra eiga frekar á hættu að glíma við þunglyndi og önnur geðræn vandamál. (Væntanlega þegar fólk eins og Gunnar í Krossinum heldur sífellt áfram að predika að foreldrar þeirra eigi einnar leiðar passa til helvítis. Það er alltaf hressandi.)

5. Hærra hlutfall barna sem alin eru upp "með slíkum hætti" verður samkynhneigt. (Ég sem hélt að börn samkynhneigðra væru bara opnari fyrir því að koma út úr skápnum ef þau væru á annað borð samkynhneigð. Ekki það að það gerði neitt til að vera samkynhneigður, en það er greinilega mikið mál fyrir Gunnar.)

6. Samband samkynhneigðra er ekki eins varanlegt og gagnkynhneigðra, sérstaklega hvað homma áhrærir, og meðalsambúðartími þeirra er um þrjú ár. (Og ég sem hélt að þegar fólk ákveður að eignast saman börn væri það vottur um skuldbindingu.)

7. Fjöllyndi er nánast lífsstíll homma og hefur það neikvæð áhrif á uppeldi barna. (Auðvitað er það sjálfsagður hlutur að fólk sem ákveður að eignast barn heldur áfram sukki, svínaríi og stóðlífi úti í bæ, auðvitað, hvað var ég að hugsa?)

Gleymdi ég einhverju? Þetta er stórkostlegt! Loksins má skrifa í blöðin fullyrðingar sem eru gersamlega út í hött og órökstuddar. Loksins má ég kynna fimm helstu hugmyndir mínar um heiminn og setja þær fram sem staðreyndir án þess að hafa nokkrar áhyggjur af argans bulli eins og rökstuðningi.

Án frekari tafa langar mig því að feta í fótspor Gunnars í Krossinum og setja fram nýmótaða heimsmynd mína án nokkurs tillits til rökstuðnings, vísinda, jarðnesks veruleika eða orsakasamhengis. Í grundvallaratriðum felst hún í því að Framsóknarflokkurinn og Krossinn eru hluti af alheimssamsæri sömu aðila og færðu okkur fuglaflensuna, silkiblóm og sembalinn. Og hér höfum við "staðreyndirnar" mínar fimm sem renna enn frekari stoðum undir kenningu mína um heiminn. Þakka þér kærlega, Gunnar í Krossinum, fyrir að frelsa mig undan viðjum rökstuðnings og orsakasamhengis. Áður hefði fólk bara getað vænt mig um fordóma gegn Framsóknarflokknum, en nú get ég, með aðferð Gunnars, auðveldlega "rökstutt" afstöðu mína.

1. Framsóknarflokkurinn er eitt andlita demónsins Gargaroth og allir sem ganga í flokkinn missa sál sína hið snarasta. Framsóknarmenn þekkjast af gatinu aftan á hnakkanum þar sem sálin var dregin út.

2. Krossinn er nornasamfélag sem byggist á fjölvíddafræðum bresku saumakonunnar Hortense Wilkinson, en hún var fræg fyrir semballeik og fjölkynngi.

3. Eitt af inntökuskilyrðunum í Krossinn er fjórða stigs kunnátta í semballeik.

4. Allir sem ganga í Krossinn og Framsóknarflokkinn fá bólusetningu við fuglaflensunni. Leynimottó þeirra er "Þurrkum út andstæðinga framfara."

5. Tilvist mannkyns liggur í fertugustu og fimmtu sveiflutíðni sjöundu víddarinnar. Þetta getur hver maður uppgötvað við það eitt að ganga niður Laugaveginn á fallegum sólskinsdegi.

Eruð þið, lesendur góðir, nú ekki öllu nær um veruleika heimsins? Datt mér ekki í hug, enda er þessi aðferð mun fljótlegri og vænlegri til árangurs en að vera endalaust að flækja sig í rök og sannleika, því satt að segja gæti maður með þeirri aðferð komist að því að maður hefði rangt fyrir sér, að framsóknarmenn væru ekki allir sálarlausir og að í Krossinum leyndist ágætis fólk. En hvers vegna að vera að flækja heiminn með rökum, umburðarlyndi og hlutlægni?

Stuttlega yfir í aðra sálma. Á dögunum sá ég líka í því fróma riti DV tvö svör við spurningu dagsins sem vöktu athygli mína. Spurt var hvort múslimar mættu reisa sér mosku hér á landi og svöruðu tveir áhugaverðir menn svo til: "Nei, þetta fólk á að aðlagast okkar menningu." Ég vona að þessir menn muni það ef þeir einhvern tíma flytjast til Indlands eða bara til Ítalíu. Þá skulu þeir ekkert vera að leita að lúterskri kirkju, heldur bara taka upp hindúatrú eða hoppa yfir í kaþólskuna, það ætti ekki að vera neitt mál. Þeir eru komnir í annað land, best að aðlagast þeirra menningu.

Að lokum vil ég koma að leiðréttingu. Á dögunum hljóp ég á mig og skrifaði hér í viðhorfspistli að kirkjan vildi ekki leggja blessun sína yfir sambönd samkynhneigðra. Réttlát reiði brast út hjá einni sannkristinni konu og hringdi hún bálreið í blaðið. Þetta var auðvitað kolrangt hjá mér. Auðvitað vill kirkjan fúslega veita samböndum samkynhneigðra blessun. Hún vill bara ekki vígja þau. Ég biðst innilega afsökunar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband